133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs.

153. mál
[12:42]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs sem unnið hefur verið að um nokkurra ára bil. Þess vegna bar ég fram þessa fyrirspurn í ljósi þess að fengin er niðurstaða um þjóðlendur á svæðinu o.s.frv. og einnig spyr ég um rekstur Jöklasetursins á Hornafirði sem miðstöðvar þjóðgarðsins til skoðunar í því samhengi.

Fyrirhuguð stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er mjög mikilvæg aðgerð í mjög mörgu tilliti, eitt mikilvægasta mál byggðanna á Suðausturlandi og að sjálfsögðu fyrir öll sveitarfélögin sjö sem eiga land að jöklinum, enda hefur þjóðgarðurinn fyrirhugaði í för með sér mörg tækifæri í ferðaþjónustu auk væntanlega fjölda fastra starfa við vörslu og eftirfylgni í kringum þjóðgarðinn. Ferðaþjónustan kemur til með að eflast mjög, enda hægt að leiða líkur að því að öflug starfsemi í kringum þjóðgarðinn verði til íbúafjölgunar og fjölbreyttara mannlífs á svæðinu sem honum tengjast. Þá munu íbúar í dreifbýlinu fá mörg verkefni við að bæta aðgengi að náttúruperlunni Vatnajökli. Þá væri upplagt að mati margra sem þar til þekkja að tengja Jöklasetur og háskólasetur í Nýheimum sérstaklega við hinn væntanlega Vatnajökulsþjóðgarð sem mundi opna ótal möguleika í rannsókna- og háskólastarfsemi á þessu svæði og á þessu sviði, þá ekki síst í tengslum við þá starfsemi sem fyrir er. Er það mjög mikilvægt. Með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs yrði einnig stigið stórbrotið skref í náttúruvernd fyrir þetta einstaka svæði og fyrir hálendi Íslands allt, þar sem það mundi einnig opna mjög á aðgengi fólks að þessari miklu náttúruperlu. Gert er ráð fyrir að þjóðgarðurinn mundi ná yfir mjög mikið landsvæði, að mér skilst, sem væri allt að 15% af yfirborði Íslands og verða einn stærsti þjóðgarður í Evrópu.

Þess vegna spyr ég hæstv. umhverfisráðherra — en það má segja að umhverfisráðherrar síðustu missira hafi unnið mjög vel að þessu máli og því hefur fleytt mikið fram á síðustu árum, frá því fyrir fjórum árum að hæstv. þáverandi umhverfisráðherra skipaði sérstaka nefnd sem ynni að stofnun þjóðgarðsins:

Hvenær er von á frumvarpi um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs í þingið? Hvað er verið að tala um að stofnkostnaður þjóðgarðsins verði? Hver er fyrirhugaður rekstrarkostnaður og hvernig er framvinda þjóðgarðsmálsins á allra næstu missirum, að mati hæstv. ráðherra?