133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs.

153. mál
[12:45]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir þessa fyrirspurn sem lýtur að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og miðstöð þjóðgarðsins á Hornafirði. Nú háttar svo til að undirbúningurinn að stofnun þjóðgarðsins er það vel á veg kominn að ég geri ráð fyrir því að geta lagt fljótlega fram á hinu háa Alþingi, vonandi á næstu dögum, frumvarp til laga um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Ef ekki er þegar búið að dreifa málinu verður það alveg á næstu dögum.

Eins og kunnugt er hefur frá upphafi verið unnið þannig að undirbúningi þessa máls að töluverður hluti lands í einkaeign verður innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Á vegum ráðuneytisins hafa farið fram viðræður við landeigendur á þeim svæðum sem áhugaverð eru fyrir þjóðgarðinn og reiknað er með að gengið verði til samninga við þessa aðila þegar frumvarpið að Vatnajökulsþjóðgarði er orðið að lögum á hinu háa Alþingi.

Hvað varðar miðstöð þjóðgarðsins á Höfn í Hornafirði er því til að svara að á vegum ráðuneytisins hefur starfað ráðgjafarnefnd sem í sitja fulltrúar þeirra sveitarfélaga sem fara með stjórnsýslu á því svæði sem gert er ráð fyrir að Vatnajökulsþjóðgarður taki til og jafnframt fulltrúar umhverfisverndarsamtaka. Ráðgjafarnefndin skilaði til mín tillögum sínum og skýrslu þann 3. nóvember sl. en meðal verkefna þeirrar nefndar var að gera tillögu um nauðsynlega uppbyggingu þjóðgarðsins og uppbyggingu þjónustunets þjóðgarðsins. Samkvæmt þessum tillögum er gert ráð fyrir að byggðar verði fjórar nýjar meginstarfsstöðvar þjóðgarðsins og þá er hugsunin sú að þær byggingar verði á ákveðinn hátt einhvers konar kennileiti Vatnajökulsþjóðgarðs. Nefndin fjallaði m.a. um hentuga staðsetningu þessara starfsstöðva þjóðgarðsins og vann jafnframt mat á rýmisþörf þeirra. Nefndin leggur m.a. til að ein fjögurra gestastofa og meginstarfsstöðva verði við Höfn í Hornafirði til viðbótar gestastofunni í Skaftafelli. Tillögur ráðgjafarnefndarinnar eru aðgengilegar í heild sinni á vef Stjórnarráðsins þar sem hægt er að lesa skýrslu nefndarinnar.

Að öðru leyti vil ég segja það um Vatnajökulsþjóðgarðinn að ráðgjafarnefndin leggur til að stofnun þjóðgarðsins taki mið af alþjóðlegum viðmiðum um þjóðgarða og friðlýst svæði og að verndarstig einstakra svæða þjóðgarðsins miðist við hefðbundnar nytjar, svo sem að beit og veiðar á fuglum, dýrum og vatnafiskum geti farið fram með viðlíka hætti innan þjóðgarðsins og verið hefur og að sú landnýting sem ákveðin verður fyrir svæðin með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs feli í sér verndun einstakrar náttúru og landslagsheilda sem ég held að við séum öll sammála um að muni vekja athygli bæði innan lands og ekki síst utan. Landnýting náttúruverndar er til þess fallin að styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins eins og hv. fyrirspyrjandi kom að í fyrirspurn sinni og ræðu. Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er metnaðarfullt verkefni, hvort sem litið er til markmiða náttúruverndar eða markmiða um framtíðarnýtingu á því svæði sem uppfyllir kröfu um verndargildi þjóðgarðsins. Þetta markmið mun þó ekki nást nema þjónustunet þjóðgarðsins verði byggt upp. Áætlaður kostnaður við uppbyggingu þjónustunetsins er um 1.150 millj. kr. og ráðgjafarnefndin telur raunhæft að mestöll þessi uppbygging eigi sér stað á fyrstu fimm árunum eftir stofnun garðsins. Þannig er gert ráð fyrir því að þjónustunet Vatnajökulsþjóðgarðs verði fullgert árið 2012 ef hafist verður handa á næsta ári.

Að öðru leyti, frú forseti, þakka ég hv. fyrirspyrjanda aftur fyrir þessa fyrirspurn um Vatnajökulsþjóðgarð og fyrir þann áhuga sem hann hefur sýnt stofnuninni og þjóðgarðinum.