133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

skilgreining vega og utanvegaaksturs.

333. mál
[12:58]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr hvernig ráðherra hyggist draga úr þeirri óvissu sem ríkir um skilgreiningu vega vegna banns við utanvegaakstri.

Eins og fram kom í fyrirspurninni ríkir óvissa um akstur á slóðum, sérstaklega vegna tvenns, annars vegar þess að skilgreiningar vega eru óljósar og hins vegar vegna þess að veghaldari er ekki þekktur.

Það er ljóst að Umhverfisstofnun fer með stjórnsýsluna varðandi náttúruvernd og þar með aðgerðir til að koma í veg fyrir akstur utan vega og á grundvelli 17. gr. náttúruverndarlaga er akstur utan vega óheimill. Á grundvelli þessara sömu laga voru einstaklingar ákærðir í sumar um utanvegaakstur og dómur hefur fallið í Héraðsdómi Suðurlands í tveimur málum til þessa. Í báðum málunum voru ökumenn sýknaðir þar sem dómurinn taldi að umferð farartækis „hefði verið um greinilegan og varanlegan slóða í náttúru Íslands“ eins og það er orðað í dómnum.

Vinnuhópur um utanvegaakstur með fulltrúum frá Umhverfisstofnun, Landmælingum Íslands og Vegagerðinni skilaði tillögu til ráðherra í 14 liðum í apríl 2005 og að beiðni umhverfisráðuneytis unnu Landmælingar Íslands og Umhverfisstofnun einnig að því að birta leiðbeinandi kort á vefnum í vor þar sem sýnt var hvar helstu slóðar og vegir væru á hálendi Íslands. Tilgangur þessa korts var fyrst og fremst leiðbeinandi. Ætlunin var að tryggja að þeir sem fylgdu kortinu gætu verið í fullri vissu um að þessir slóðar væru viðurkenndir til aksturs, þ.e. þeir slóðar sem kortið sýndi. Það var hins vegar meðvitað og skýrt að fleiri slóðar kynnu að vera til staðar þar sem hugsanlega mætti aka án þess að um utanvegaakstur í skilningi náttúruverndarlaga væri að ræða.

Áður en þetta vefkort var birt var það sent til umsagnar til um 30 sveitarfélaga sem eiga lögsögu að hálendinu. Því miður varð frekar lítið um viðbrögð sveitarfélaganna við þessu erindi en þá ber að hafa í huga tímasetninguna síðasta vor þar sem umsagnanna var óskað rétt fyrir sveitarstjórnarkosningar og jafnframt voru sum þessara sveitarfélaga í sameiningarferli á þessum sama tíma. Kortið var engu að síður birt á vefnum og óskað eftir athugasemdum frá notendum. Nokkuð margar athugasemdir hafa borist og efni þeirra er m.a. spurningar um rétt landeigenda til að loka vegaslóðum sem eru þá á kortinu. Jafnframt er í einhverjum tilvikum spurt um rétt sveitarfélaga til að ákvarða hverjir slóðanna séu opnir og hverjum yrði lokað og líka bárust athugasemdir um slóða sem þegar hefur verið lokað, slóða sem hafa verið taldir eða eru taldir ófærir og slóða sem talið var að vantaði inn á þetta leiðbeinandi kort. Það er rétt að ítreka og halda því til haga að óvissan snýst að miklu leyti um það hver sé veghaldari vega og vegaslóða.

Enginn vafi leikur á veghaldi Vegagerðarinnar en hún sér aðeins um númeraða vegi landsins. Sannleikurinn er hins vegar sá að fæstir af þeim vegum sem sjáanlegir eru á hálendinu eru í skilgreindu veghaldi Vegagerðarinnar. Þá er spurningin, eins og ég sagði, hver veghaldarinn er. Sumir þessara vega eru svokallaðir almennir vegir samkvæmt skilgreiningu 9. gr. vegalaga. Þeir geta verið í eigu sveitarfélaga eða orkufyrirtækja og eiga það sammerkt að vera opnir fyrir almennri umferð.

Þá eru eftir fjölmargir vegir og vegaslóðar sem eru án veghalds og ef við horfum fram hjá hreinum akstri utan vega þar sem engin för eða slóðar eru fyrir stendur út af hvernig fara skal með óskilgreinda vegi og hvernig skal standa að því að flokka þá, kortleggja og merkja. Það verkefni sem er óleyst er hverjir þessara munaðarlausu, ef svo má segja, vega eru ætlaðir til aksturs og hverjir ekki. Það er rétt að taka fram að ég hef átt í viðræðum við félagasamtök vegna þessa máls, m.a. við fulltrúa frá ferðaklúbbnum 4x4 og umhverfisvernd Vélhjólaíþróttaklúbbsins, VÍK. Áfram verður haldið vinnu við að skilgreina vegi og vegaslóða utan þjóðvegakerfisins og ég hef sett af stað starf sem miðar að þessu í nánu samráði við sveitarfélög sem hlut eiga að máli þess efnis hver tilgangur einstakra vega sé og hverjum þeirra megi loka. Eins og ég sagði er veghaldið mikið atriði og það er ástæðulaust annað en að þeim vegum á hálendinu verði lokað fyrir umferð vélknúinna ökutækja þar sem tilgangur vegar er óljós eða enginn aðili, opinber eða einkaaðili, gengst við veginum sem veghaldari. Ég vil í þessu sambandi ítreka skipulagsskyldu sveitarfélaga í þessum efnum svo og lögsögu samvinnunefndar um skipulag miðhálendis Íslands.