133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

kjör framkvæmdastjóra norrænu ráðherranefndarinnar.

305. mál
[13:10]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég ber fram fyrirspurn til hæstv. samstarfsráðherra Norðurlandanna, Jónínu Bjartmarz. Fyrirspurnin varðar kjör framkvæmdastjóra norrænu ráðherranefndarinnar. Mig fýsir að vita með hvaða hætti íslensk stjórnvöld stóðu að kjöri framkvæmdastjóra norrænu ráðherranefndarinnar í lok október síðastliðins, hvort samband hafi verið haft við norsk stjórnvöld í því máli og þá hvernig og hvort ráðherra telji að vinnubrögðin hafi einhver áhrif á starfsemi Norðurlandaráðs í framtíðinni.

Virðulegi forseti. Þegar maður skoðar þetta mál, athugar til að mynda fréttir af málinu í réttri tímaröð, þá er eins og þar hafi ýmsir brallað allnokkuð í reykfylltum bakherbergjum — verið að plotta eins og sagt er á fínu máli. Það kemur í ljós í viðtali við þann mann sem fékk þessa stöðu, þ.e. Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands, að Geir H. Haarde, núverandi hæstv. forsætisráðherra, hafi haft samband við hann fyrir nokkru síðan til að ámálga þetta starf við hann. En í viðtölum við t.d. hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur, sem mér skilst að sé formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, virðist hún ekki kannast við eitt eða neitt þá daga sem Norðurlandaráðsþing stendur yfir. Það er svolítið undarlegt í ljósi þess að flokkssystkinin hv. þm. Geir H. Haarde og hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir virðast ekki ræðast við um þessi mál þótt þau séu í sama flokki og starfi bæði innan Norðurlandaráðs.

Af fréttaflutningi var augljóst að heitingar voru í gangi. Finnar létu skína í tennurnar í þessu máli og sóttust eftir þessu starfi líka. Það er vísbending um það að Norðmenn og Íslendingar hafi komið sér saman um sameiginlegan frambjóðanda og á bak við tjöldin komið því til leiðar að á endanum samþykktu forsætisráðherrar allra Norðurlandanna, að mér skilst, það kjör en síðan hafi menn farið í hrossakaup í framhaldi af því og ákveðið það að Finnar fengju til sín sérstaka skrifstofu menningarmála eftir allar þessar hrókeringar. Öll þessi skipti og baktjaldamakk enduðu með því að Íslendingar fengu framkvæmdastjóra norrænu ráðherranefndarinnar og Finnar fengu menningarskrifstofu. Þá er spurningin hvort allir hafi verið ánægðir og hvort þetta muni hafa áhrif á störf Norðurlandaráðs í framtíðinni.