133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

kjör framkvæmdastjóra norrænu ráðherranefndarinnar.

305. mál
[13:18]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hér kemur fram að auðvitað á Halldór Ásgrímsson að baki langan og glæsilegan feril í valdapólitísku samhengi. Hitt er einnig rétt að ákvörðunin um aðild Íslands að innrásinni í Írak, viljayfirlýsing okkar og vera okkar á listanum yfir hinar vígfúsu þjóðir sem lýsti yfir innrásarstríði á Írak hér fyrir rúmum þremur árum, er að sjálfsögðu hörmuleg. Hún varpar djúpum skugga á feril Halldórs Ásgrímssonar eins og feril ríkisstjórnar Íslands og ríkisstjórnar hægri flokkanna síðustu 12 árin.

Hér er deilt um hvort eðlilega hafi verið staðið að kjöri Halldórs sem framkvæmdastjóra norrænu nefndarinnar og hvort verslað hafi verið með Halldór Ásgrímsson í einhverjum vafasömum hrossakaupum eða ekki. Það er engin leið að segja til um það hér, en maður hlýtur að vona að svo hafi ekki verið. Hins vegar varpar þetta líka ljósi á það og hlýtur að (Forseti hringir.) velta upp spurningunni um hversu nytsöm starfsemi (Forseti hringir.) Norðurlandaráðs er nú og í framtíðinni.