133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

kjör framkvæmdastjóra norrænu ráðherranefndarinnar.

305. mál
[13:21]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því í þessum ræðustól að lýsa þeirri skoðun minni að ummæli hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar og Björgvins Sigurðssonar um Íraksstríðið í þessu samhengi við kjör framkvæmdastjóra norrænu ráðherranefndarinnar eru ósmekkleg. Ég vísa því jafnframt alfarið á bug sem haldið hefur verið fram af fyrirspyrjanda að hér hafi farið fram einhvers konar baktjaldamakk og hrossakaup.

Það lá fyrir í þetta skipti sem ekki hefur skeð áður í sögu norrænu ráðherranefndarinnar að tveir mjög vel hæfir kandídatar voru um þessa stöðu. Það er kannski ekki rétt að kalla þá umsækjendur. Tveir menn höfðu lýst áhuga á því að gegna þessari stöðu og venju fremur — það hafði ekki verið gert áður — var ákveðið á fundi samstarfsaðila Norðurlandanna að einungis hæfni og reynsla yrðu lögð til grundvallar þessari ráðningu. (Gripið fram í.) Þegar búið var að fara yfir ferilskrá þessara tveggja manna var ljóst að hæfari menn voru ekki til starfsins á Norðurlöndunum en þessir tveir, út frá hæfni þeirra og fyrri reynslu, og þá var ákveðið að taka þessa tvo menn í viðtöl á fundi samstarfsráðherranna þar sem sátu, auk samstarfsráðherranna fimm, (Gripið fram í.) fulltrúar Grænlands og Færeyja. Þar gerðu þessir menn grein fyrir framtíðarsýn sinni og sýn almennt á norrænt samstarf og röktu sögu sína og aðkomu að starfinu til þessa. Niðurstaðan var alveg klár og naut víðtæks stuðnings meðal samstarfsráðherranna eftir þennan fund, sú að Halldór Ásgrímsson væri æskilegasti maðurinn til að gegna þessu starfi. Stuðningurinn var mikill og víðtækur. (Gripið fram í.)

Þegar lesið er úr finnskri pressu um þetta mál skulum við hafa hugfast að Finnar voru sjálfir með hinn kandídatinn. Jan Erik Enestam er samstarfsráðherra þeirra og lýsti áhuga á þessu starfi þannig að við skulum skoða finnsku pressuna í því ljósi. Ég vil þó lýsa því yfir hér að bæði við þessa ákvörðun og í kjölfar hennar kenndi ég mjög mikillar (Forseti hringir.) og víðtækrar ánægju með þann mann sem ráðinn var nýr framkvæmdastjóri norrænu ráðherranefndarinnar, ekki síst vegna áherslna (Forseti hringir.) á samstarfi í vesturátt.