133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

Suðurlandsvegur.

137. mál
[13:51]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hef alltaf verið svolítið skotinn í því að farið verði í einkaframkvæmdir hvað varðar svona stór verkefni í vegagerð, sérstaklega þegar um er að ræða að það geti orðið til þess að flýta framkvæmdum umfram það sem annars hefði orðið ef ríkissjóður ætti að borga dæmið. Hvalfjarðargöngin eru ágætt dæmi um það. Hvort það sé hins vegar leiðin sem ætti að fara í þessu tilfelli ætla ég ekki að dæma um hér og nú. Ég vil fá að kynna mér málið betur áður en ég tek afstöðu til þess. Hins vegar held ég að það sé afskaplega brýnt að þessi vegur verði tvöfaldaður, sú 2+1 lausn sem er núna er á margan hátt mjög misheppnuð, sérstaklega á annarri akreininni, þ.e. þeirri einu með víravegriðinu á milli, maður er dauðhræddur við það sérstaklega við sem ökum oft á mótorhjólum. Það er stórhættulegt. Það er ómögulegt að snúa við þegar eitthvað kemur upp á, menn verða bara að halda áfram út á enda. Þetta er mjög gallað og þetta er engin lausn til frambúðar. Við hljótum að kalla eftir tvöföldum vegi.