133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

Suðurlandsvegur.

137. mál
[13:53]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil koma því að að ég tel að sömu lögmál gildi um allar þrjár leiðirnar að og frá höfuðborginni. Það eru í rauninni mjög álíka kröfur sem við eigum að gera til allra þessara leiða. Það er búið að sanna sig með þeirri vegarlagningu sem nú er komin út á Reykjanesið, að því leyti til sem hún er komin, að það er auðvitað framtíðin að búa vegina þannig út að tvær akreinar séu í hvora átt. Þetta er dýrt en það kemur greinilega til baka í því að koma í veg fyrir slys.

Hvort fara eigi fram einkafjármögnun á slíkum framkvæmdum, sem hæstv. samgönguráðherra virðist vera mjög hrifinn af, er eitthvað sem ég set spurningarmerki við. Ég spyr: Því í ósköpunum þarf á því að halda núna þegar ríkissjóður hefur yfir svona gríðarlegu fjármagni að ráða? (Forseti hringir.) Mér fyndist að hæstv. ráðherra ætti að fara yfir það hver þörfin fyrir það er núna.