133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

hjólreiðabrautir.

379. mál
[14:00]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Baldursdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. samgönguráðherra en áður en ég fylgi henni úr hlaði með fáeinum orðum vil ég lesa fyrirspurnina eins og henni hefur verið dreift:

Hefur ráðherra látið undirbúa áætlun um að lagðar verði hjólreiðabrautir sem verði fullgildur samgöngukostur?

Rökin fyrir að leggja hjólreiðabrautir sem fullgildan samgöngukost eru mýmörg, t.d. er þetta heilsuspursmál og til að sporna við mengun. Einnig felst í slíkri aðgerð sparnaðarsjónarmið, t.d. ef um er að ræða stuttar vegalengdir.

Það sem ég vil leggja áherslu á, virðulegi forseti, er að samgönguyfirvöld hafi forgöngu um lagningu hjólreiðabrauta með Vegagerðina sem framkvæmdaraðila. Ef vel á að takast þarf lagning hjólreiðabrauta að vera í samstarfi við skipulagsyfirvöld og vera hluti af starfi Vegagerðarinnar. Hjólreiðabrautir hafa þá sérstöðu að þær þarf að leggja með sem minnstum halla. Þær þurfa að fylgja hæðarlínum eins mikið og kostur er ef þær eiga að nýtast sem fullgild samgönguleið. Þess vegna þarf að hugsa lagningu hjólreiðabrauta frá upphafi og samhliða hönnun og skipulagningu vegakerfis.

Herra forseti. Hvað varðar útivistarhjólreiðastíga gilda aðeins önnur lögmál að mínu mati og aðrar kröfur. Hingað til hefur að miklu leyti verið ætlast til að hjólað sé á útivistarstígum sem ekki eru lagðir með áðurnefndum kröfum. Virðulegi forseti. Útivistarhjólreiðarstíga má leggja með miklu meiri halla og ekki er eins brýnt að þeir fylgi áætlun skipulagsyfirvalda í vegamálum.