133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

hjólreiðabrautir.

379. mál
[14:10]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að gleðjast yfir því að málið sé á dagskrá og hæstv. ráðherra gefi það út að það eigi að ráðast í gagngerar breytingar á lagagerð hvað þetta varðar. En fram að þessu hafa samgöngur á borð við hjólreiðar verið afgangsstærð í samgöngukerfi okkar Íslendinga eins og allir vita. Hjólreiðar á þjóðvegum utan þéttbýlis eru oft á tíðum stórhættulegar og þar er fólk í mikilli hættu og lítið ráð fyrir því gert. Það er því að sjálfsögðu ánægjuefni að hv. fyrirspyrjandi skuli taka þetta upp og það skuli vera sett á dagskrá með þessum hætti eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur ítrekað gert og það njóti aukins skilnings meðal samgönguyfirvalda að gera verði ráð fyrir hjólreiðabrautum sem afgerandi samgöngukosti til að þetta verði að veruleika, enda er þetta mjög vaxandi ferðamáti.