133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

starfslok starfsmanna varnarliðsins.

136. mál
[14:17]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson) (Sf):

Herra forseti. Hér er um að ræða nokkuð gamla fyrirspurn. Hún var lögð fram 3. október, þ.e. stuttu eftir starfslok starfsmanna sem áður höfðu unnið hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Fyrirspurnin snýst um það hvort hæstv. utanríkisráðherra finnist koma til greina að hlutafélagið sem stofnað var um eignirnar á Keflavíkurflugvelli komi að einhverju leyti að gerð starfslokasamninga við fyrrverandi starfsmenn varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.

Við vitum betur en frá þurfi að segja að það var ákveðin þrjóska og ofmat íslenskra ráðherra á eigin getu sem leiddi til þess að Bandaríkjamenn ákváðu að fara frá Íslandi með tiltölulega skömmum fyrirvara, styttri fyrirvara en nokkur hefði getað látið sér detta í hug. Samningamenn íslenska ríkisins voru í þröngri stöðu eftir að búið var að tilkynna brottförina og við vitum, eins og ég sagði áðan, af hverju sú þrönga staða kemur til. Ég hélt að í þeirri stöðu yrði þó lögð áhersla á að reyna að tryggja viðunandi starfslok þeirra fjölda starfsmanna sem höfðu að mestu eða öllu leyti eytt starfsævi sinni í störfum fyrir varnarliðið.

Við vitum að utanríkisráðuneyti íslenska ríkisins hefur alltaf í raun borið vinnuveitendaábyrgðina gagnvart starfsmönnunum. Við þekkjum að þegar varnarliðið hefur þverskallast við að greiða samkvæmt samningum eða að öðru leyti brotið á kjörum starfsmanna hefur utanríkisráðuneytinu verið stefnt. Fjöldi dómsmála vitnar um það að þegar upp er staðið er það utanríkisráðuneytið eða íslenska ríkið sem ber ábyrgðina gagnvart íslenskum starfsmönnum varnarliðsins.

Það virðist ekki hafa verið neinn vilji af hálfu íslenska ríkisins að reyna að gæta hagsmuna starfsmannanna í samningunum við Bandaríkjamenn. Einu svörin sem verkalýðsfélög og sveitarstjórnir á Suðurnesjum fengu þegar ríkið var hvatt til þess að gæta hagsmuna starfsmannanna var að ekki væri hægt að finna neina leið til þess í samningum að gæta hagsmuna þeirra, einungis væri um formlegan uppsagnarfrest að ræða hjá bandaríska hernum og ekkert sem ríkið gæti gert til að knýja á í samningum um annað. Þetta var lína samningamanna ríkisins þó að vitað væri um dæmi annars staðar þar sem bandaríski herinn hefði gert betur við starfsmenn sína við niðurlagningu á herstöðvum.

Við vitum hvað íslenska ríkið fékk í sinn hlut. Það voru ruslahaugarnir og tiltekt á þeim og síðan mannvirkin á flugvellinum. Mannvirkin eru verðmæt þar sem þau standa þegar búið verður að koma þeim í not og þau verða lögð til þessa nýja hlutafélags um varnarliðseignir. Því er eðlilegt að spyrja, í ljósi þess að herinn skilur þó eftir ákveðin verðmæti eftir starfsemi sína, hvort ekki sé rétt að velta því fyrir sér að þetta nýja félag tryggi starfsmönnum varnarliðsins, sérstaklega eldri starfsmönnum, sómasamleg starfslok umfram það sem bandaríski herinn var tilbúinn að gera. Ég held að íslenska ríkið skuldi þessum starfsmönnum sem hafa eytt allri starfsævi sinni þarna upp frá sómasamlegri starfslok en bandaríski herinn var tilbúinn til að standa að.