133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

starfslok starfsmanna varnarliðsins.

136. mál
[14:23]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál upp. Hér er um brýnt mál að ræða. Það er nefnilega svo að það er til skammar hvernig skilið var við margt af því starfsfólki sem var hjá varnarliðinu. Það vita allir og það blasir við að það þarf að gera könnun á högum þess, hvað varð um þetta fólk og í hvernig störf fór það. Margt af þessu fólki, eldra ófaglært fólk á mjög erfitt með að fá vinnu sem stendur nokkurn launalegan samjöfnuð við það sem það hafði áður hjá varnarliðinu. Þetta er fólk sem helgaði starfsævi sína að mestöllu leyti varnarliðinu og stendur nú uppi án atvinnu þegar varnarliðið fer nokkuð skyndilega. Það væri sómi að því að íslensk stjórnvöld kæmu með einhverjum hætti að því að gera starfslokasamninga við þetta fólk þannig að það megi ljúka starfsferli sínum með reisn og sóma og í fjárhagslegu skjóli þess að hafa starfslokasamning til að lifa af.

Það er sjálfsagt mál, það er mannréttindamál og það er ástæða til að skora á hæstv. ráðherra að endurskoða það svar sem hún gaf áðan og gefa vilyrði fyrir því að íslensk stjórnvöld komi þarna að málum. Að því væri mikill sómi.