133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

sprengjuleit.

206. mál
[14:31]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að halda þessu máli vakandi, sem er vissulega mikilvægt.

Fyrsta spurning hans er þessi, með leyfi forseta: „Er vitað á hvaða svæðum virkar sprengjur liggja eftir æfingar Bandaríkjahers á Íslandi?“

Svarið er eftirfarandi: Skot- og sprengjuæfingar hafa verið haldnar á Íslandi frá því í seinni heimsstyrjöldinni á 73 svæðum sem vitað er um og ná yfir 24.000 hektara lands. Flest eru á Stór-Reykjavíkursvæðinu og Reykjanesi. Nokkur eru á Vesturlandi, Norðurlandi og Austurlandi. Langstærstu svæðin eru frá tíma seinni heimsstyrjaldarinnar vegna æfinga breska hernámsliðsins og síðar Bandaríkjamanna.

Önnur spurning er svohljóðandi: „Hver mun sjá um sprengjuleit og eyðingu á þessum svæðum?“

Svarið er eftirfarandi: Sprengjueyðing og þar af leiðandi hreinsun sprengjusvæða er lögum samkvæmt á ábyrgð Landhelgisgæslu Íslands sem hefur eftir þörfum samráð við lögregluyfirvöld á hverjum stað. Að mínu viti kemur þó vel til greina að utanríkisráðuneytið taki þátt í því, t.d. með þeim hætti að sprengjusérfræðingar nýttust til friðargæsluverkefna þann tíma árs sem ekki er hægt að leita að og eyða sprengjum á Íslandi. Slíkt verkefni er einmitt í skoðun í ráðuneytinu núna um stundir og var kynnt í utanríkismálanefnd seint í dag.

Þriðja spurning hljóðar svo: „Hvenær er áætlað að hreinsun verði lokið og hver er áætlaður kostnaður við leit og eyðingu?“

Svarið er eftirfarandi: Ljóst er að um langtímaverkefni er að ræða. Ekki er hægt að gera nákvæmar tíma- og kostnaðaráætlanir um verkefnið vegna þess að ítarleg skoðun svæða þarf að liggja til grundvallar slíku mati. Þó má fastlega gera ráð fyrir því að verkið verði bæði langvinnt og kostnaðarsamt. Samkvæmt áætlun sem unnin var í samstarfi utanríkisráðuneytisins, varnarliðsins og sprengjusveitar Landhelgisgæslunnar, hefur þegar farið fram hreinsunarstarf á tilteknum svæðum, aðallega á Patterson-svæðinu, og unnið er að því að móta með hvaða hætti þeirri vinnu verður áfram haldið.