133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

sakaferill erlends vinnuafls.

304. mál
[14:40]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að bera fram fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra. Fyrirspurnin hljóðar svo, með leyfi forseta:

Kanna yfirvöld að einhverju leyti hugsanlegan sakaferil fólks sem komið hefur hingað til lands frá ýmsum Evrópulöndum eftir að lög um frjálst flæði vinnuafls tóku gildi 1. maí sl.? Ef svo er, hvernig er þetta gert?

Eins og við höfum kannski öll heyrt í umræðunni undanfarnar vikur hefur aðstreymi erlends fólks sem hingað er komið til að starfa aukist mjög mikið eftir að lögin um frjálsa för launafólks voru tekin upp frá og með 1. maí sl. Þá var opnað fyrir frjálst flæði, sem kallað er, frá löndum eins og Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Póllandi, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklandi og Ungverjalandi.

Við vitum að síðan hafa fjölmargir einstaklingar komið hingað til lands. Tölurnar eru nokkuð á reiki. Ég hef sjálfur lagt fram fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra um það hvernig staðan var 1. nóvember sl. og bíð eftir svari hvað það varðar. Eins og ég sagði eru tölurnar nokkuð á reiki en heyrst hafa tölur á milli 7 þúsund og 10 þúsund manns.

Mig fýsir að vita hvort íslensk stjórnvöld kanni að einhverju leyti hugsanlegan sakaferil hjá þeim sem hingað koma og með hvaða hætti er það þá gert, ef um það er að ræða.