133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

skólagjöld í opinberum háskólum.

152. mál
[14:59]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir að taka til umræðu það mikilvæga mál sem fjármögnun háskólanna er og þá umræðu sem hér á sér stað um skólagjöld í opinberum háskólum. Það hefur verið stefna þessarar ríkisstjórnar að taka ekki upp skólagjöld í grunnnámi í opinberum háskólum þó að hún hafi ekki forðast að ræða almennt um fjármögnun háskólanna. Það er einmitt mikilvægt að bregðast við þeirri frábæru og jákvæðu þróun sem orðið hefur hér á háskólastiginu. Það er nefnilega svo að nemendum hefur fjölgað langt umfram það sem við vonuðumst til. Þó að við ætluðum okkur svo sannarlega að fjölga þeim hefur fjölgunin orðið enn meiri og ég veit að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson getur tekið undir þá ánægju mína.

Það er mikilvægt að við einmitt ræðum hvernig við mætum þessari þróun, fjölgun háskólanna og fjölgun nemendanna. Ég ætla einmitt á eftir að leggja fram fyrirspurn til hæstv. ráðherra um það hvernig við m.a. getum rætt þau mál. En við ætlum okkur ekki að fara í skólagjöld, heldur munum við leita annarra leiða til að mæta þessari fjárþörf háskólanna.