133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

stuðningur atvinnulífsins við háskóla.

217. mál
[15:13]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það sem mestu skiptir í þessu samhengi og við vorum að ræða áðan í tengdri fyrirspurn er að efla tekjugrunn háskólanna, bæði einkarekinna og opinberra, gera hann fjölbreytilegri. Efla aðkomu atvinnulífs, efla aðkomu einstaklinga og lyfta hinu opinbera framlagi til skólanna upp í það mark sem við viljum að það nái.

Hvað varðar skólagjöldin þá hef ég sagt það áður að það kemur að sjálfsögðu vel til greina að taka upp skólagjöld á tilteknar námsgreinar, t.d. í framhaldsnámi, að því uppfylltu að fyrir þeim sé lánað og jafnréttis til náms sé gætt. Þau hafa marga aðra jákvæða þætti eins og að flýta námslokum og fleira og fleira. Það er hægt að nota gjaldtökuna með jákvæðum hætti einnig.

En á grunnnámi í opinberu háskólunum tel ég að hún eigi alls ekki við. Ég held einfaldlega að það borgi sig alls ekki að taka það upp, hvorki fyrir einstaklingana né hið opinbera. Ég held að það eigi vera gjaldfrjáls menntaleið frá leikskóla og upp í gegnum háskóla. En á mörgum sviðum eiga þau vissulega við.