133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

stuðningur atvinnulífsins við háskóla.

217. mál
[15:18]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og líka þessa fyrirspurn. Ég tek heils hugar undir með hv. fyrirspyrjanda að það er mikilvægt að sú bylting sem hefur átt sér stað á síðustu árum á háskólastiginu geti haldið áfram. Við erum ekkert að láta af henni, þetta er jákvæð bylting.

Til þess þarf, við vitum það, aukið fjármagn. Við höfum verið að auka fjármagn til háskólastigsins. Það er hárrétt að við verðum að halda opnum möguleikum fyrir háskólastofnanir, menntastofnanir, til þess að afla eigin tekna með einhverju móti. Við eigum að vera opin fyrir þeim leiðum.

En síðan er svo margt annað sem kemur inn í það að halda byltingunni áfram. Þess vegna tel ég mikilvægt að ræða þau lög sem ég ræddi í umræðunni áðan, þ.e. nýja rammalöggjöfin um háskólana þar sem við erum að gera auknar gæðakröfur.

Þar erum við að taka háskólana á næsta stig. Við erum búin að fjölga nemum. Við höfum aukið fjármagnið. Núna er komið að því stóra máli að við stöndumst erlenda samkeppni, að okkar fólk hér heima, að háskólar okkar standist gæðakröfurnar, alþjóðlegar gæðakröfur og alþjóðlega staðla sem settir eru, líka til að tryggja að það fjármagn sem við setjum í háskólana og munum halda áfram að auka, skili sér raunverulega til samfélagsins. Það er þetta tvennt sem þarf að fara saman og í þá veru hafa verið tekin jákvæð skref.