133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

Miðstöð mæðraverndar.

[15:47]
Hlusta

Kolbrún Baldursdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka undir orð hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur um að það er engum blöðum um það að fletta að Miðstöð mæðraverndar hefur árum saman sinnt starfi sínu vel, af natni og mikilli færni. Um það er ég sannfærð, bæði hef ég heyrt það og ég hef líka eigin reynslu af því.

Hins vegar kalla breytingar oft á meiri breytingar og eitt leiðir af öðru. En ég er líka sammála því að það eru ýmsir ókostir við að hafa svona þjónustu á tveimur stöðum. Það er fyrst og fremst hætta á að hlutverk og ábyrgð verði óskýr og að sérþekking tapist. Áhættuþungun er ekki heldur endilega viðvarandi ástand alla meðgönguna og þá getur komið upp sú spurning á hvorn staðinn konan eigi að fara.

Hins vegar er svona komið og þetta er staða mála í dag og þá er að sjálfsögðu spurning að fá reynslu á þetta fyrirkomulag. Eins og það lítur út í mínum augum skiptir núna mestu máli að tekið sé á áhættuþáttum í meðgöngutilfellum af mikilli sérþekkingu og að þau tilfelli fái meðhöndlun af okkar helstu sérfræðingum þar sem nauðsynlegur tækjabúnaður er ekki langt undan.