133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

Miðstöð mæðraverndar.

[15:48]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það ber að þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir að koma með til umræðu Miðstöð mæðraverndar og fyrirkomulag á þeirri þjónustu.

Vorið 2005 ákváðu þáverandi borgaryfirvöld að selja húsnæði Heilsuverndarstöðvarinnar á almennum markaði. Þar var ýmsum greinum forvarna og heilsugæslu vel sinnt sem og ungbarna- og mæðravernd. Við söluna kom upp mikil óvissa og fyrirsjáanlegt varð að starfsemin tvístraðist um borgina. F-listinn í borgarstjórn varaði við þeirri óvissu sem upp kæmi vegna sölunnar þar sem allt var í óvissu um hvar og hvernig þjónustunni yrði komið fyrir. Frjálslyndir í borgarstjórn lögðust gegn sölunni þar sem ekki var tryggt að starfsemin yrði áfram í nágrenni við Landspítala – háskólasjúkrahús.

Flutningur hluta þjónustunnar upp í Breiðholt og annars hluta yfir á kvennadeild veikir og tvístrar þeirri starfsemi og sérfræðiþekkingu sem verið hefur á einum stað. Það var óheppilegt að færa hluta starfseminnar út fyrir svæði LSH en það hefur einmitt verið talinn kostur hingað til að helstu þættir starfseminnar væru svæðisbundnir í grennd við Landspítala – háskólasjúkrahús við Hringbraut. Stofnunin er í dag mikilvæg miðstöð heilsugæslunnar í borginni.

Miklar breytingar verða á skipulagi mæðraverndar á höfuðborgarsvæðinu frá 24. nóvember nk. Þá munu þær konur sem skilgreindar hafa verið með áhættuþætti í meðgöngu sækja mæðravernd á Landspítala – háskólasjúkrahús í stað Miðstöðvar mæðraverndar. Mikil óánægja er meðal starfsfólks Miðstöðvarinnar og óvissa um framhaldið. Fagdeild heilsugæsluhjúkrunarfræðinga hefur einnig óskað eftir að ákvörðunin verði endurskoðuð.

Það bendir þess vegna allt til þess að ferlið sé mistök, og hvorki meiri hluti borgarstjórnar né heilbrigðisráðherra fást til að stöðva ferli sem kostar mikla fjármuni og veldur verri þjónustu.