133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

Miðstöð mæðraverndar.

[15:50]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að allt þetta rót er komið á þjónustu við verðandi mæður í áhættu er einkavæðingarárátta ríkisstjórnarinnar. Ríkið átti fínt húsnæði, Heilsuverndarstöðina, sérstaklega byggt fyrir heilbrigðisþjónustu, seldi það nánast upp úr þurru og tók á leigu óviðunandi húsnæði langt frá Landspítalanum fyrir þjónustu sem mæðraverndin þurfti að vera í nánum tengslum við og spítalinn telur sig ekki hafa mannafla til að sinna þar.

Hvað gengur stjórnvöldum til með þessu? Ekki var þetta í þágu heilbrigðisþjónustunnar sem sinnt var á Heilsuverndarstöðinni. Það er alveg víst. Miðstöð mæðraverndar var opnuð fyrir fjórum árum eftir tugmilljóna króna endurbætur á húsnæðinu í Heilsuverndarstöðinni og fyrir ári var byggt þar upp tölvuver til kennslu og fundarhalda fyrir milljónir króna. Svo var selt.

Engin þarfagreining lá fyrir um húsnæðisþörfina þegar selt var og ákveðið að leigja, enda leiguhúsnæðið gjörsamlega óviðunandi, of lítið, gluggalaust að mestu og annað eftir því.

Þeir sem gerst til þekkja segja að breytingarnar í Mjóddinni kosti að lágmarki 150 millj., öllu meira en það hefði kostað að gera Heilsuverndarstöðina við Barónsstíg alla upp í fínt ástand. Ég spyr hæstv. ráðherra: Finnst honum þetta viðunandi meðferð á almannafé?

Haldið var áfram að kosta til milljónatugum í breytingar á leiguhúsnæðinu þrátt fyrir að vitað væri að Miðstöð mæðraverndar færi aldrei þangað. Hvaða óráðsía er þarna á ferðinni og hvað hefur þetta kostað skattborgara? Ég fer fram á það að hæstv. ráðherra upplýsi Alþingi um alla þætti þessa máls, máls sem er ástæðan fyrir því að mæðraverndin leggst af í núverandi mynd.

Við þingmenn Samfylkingarinnar munum leggja fram skýrslubeiðni á Alþingi um þessi mál fáist ekki viðunandi svör hér í umræðunni um alla þætti málsins.