133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

Miðstöð mæðraverndar.

[16:02]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Að sjálfsögðu munu konurnar fá bestu þjónustu sem völ er á. Það er að sjálfsögðu markmið okkar. Ég vil taka fram að það er ekki verið að leggja niður Miðstöð mæðraverndar. Það er alls ekki verið að því. Hún verður að sjálfsögðu mikilvægur bakhjarl í heilsugæslunni við faglega þjónustu og ráðgjöf til heilsugæslunnar.

Það sem verið er að gera er að sá hópur sem hefur verið í áhættumeðgöngu er færður til. Á sínum tíma sóttu bara 25% þungaðra kvenna í landinu sér þjónustu á heilsugæslunni. Núna erum við fara upp í 85%. Þetta er bara eðlileg þróun. Þær eiga að njóta þjónustu á eðlilegu þjónustustigi, sem er í heilsugæslunni. Það er gengið í þá átt.

Tveir þriðju af þeim sem nutu þjónustu á Miðstöð mæðraverndar munu núna njóta þjónustu á heilsugæslustöðvunum. Ég veit að þingmenn eru sammála þeirri stefnu, hún er samkvæmt lögum. Það á að þjónusta þennan hóp á heilsugæslunni. Hvað með hinn hópinn sem er í áhættumeðgöngu? Það er erfiðasti hópurinn sem þarf að njóta fullkominnar þjónustu. Þá er eðlilegt að honum sé sinnt á Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi.

Hluti þessa hóps hefur þurft að fara inn á Miðstöð mæðraverndar sem aukaviðkomustað. Það verður bara að segjast eins og er. Hluti þessa hóps hefur þurft að fara þangað og síðan inn á LSH til að njóta þjónustunnar þar sem er fullkominn tækjabúnaður og betri aðstæður.

Ég vísa því algjörlega á bug að við séum að stíga eitthvert skref aftur á bak. Það er kolrangt að halda því fram. Við ætlum að veita þunguðum konum á Íslandi þá fullkomnustu þjónustu sem völ er á að veita. Það er mitt mat að hefði þessi húsnæðisflutningur ekki orðið hefðum við samt tekið þetta skref. Það hefði komið seinna. Það er rétt að þetta hefur gengið hratt fyrir sig. Ég tel að við hefðum samt tekið þetta skref. Það hefði bara komið síðar. Það er ekki þannig að hér sé búið að setja fjármagn sem ekki mun nýtast. Breytingarnar sem urðu á (Forseti hringir.) Miðstöðinni á Barónsstíg hefðu þurft að verða hvort eð er. Það voru rör sem sprungu. Það varð að gera við þau rör algjörlega óháð Miðstöð mæðraverndar.