133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

hrefna og botnfiskur.

229. mál
[18:22]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Það er eflaust vafasamt að ætla að reikna upp á einhver tonn eða kíló það sem hrefnan étur árlega af fiski, en ég held að þeir sem velta þessu fyrir sér og þeim gríðarlega háu tölum sem komu fram, jafnvel á þriðju milljón tonna af fiski árlega sem hrefnan étur, ættu að staldra við og velta því fyrir sér hvað þetta er mikið í samanburði við það sem við tökum. Á síðasta fiskveiðiári tókum við um eina og hálfa millj. tonna úr öllum stofnum. Ég tel að menn þurfi að skoða þessar tölur til að átta sig á því sem erum að veiða, við erum aukaleikarar í þessu vistkerfi eins og hrefnan, aðalleikararnir eru náttúrlega fiskarnir sjálfir.

Það má vel reikna út með meiri vissu hvað þorskurinn étur af sjávarfangi en það sem hrefnan étur. Það er örugglega vel á tuttugustu milljón tonna árlega sem hann þarf að éta til að vaxa og viðhalda sér. Á hverjum degi þarf hann að éta að lágmarki 20.000 tonn bara til að halda lífi og síðan þarf hann að bæta upp fyrir það sem er veitt úr stofninum og til vaxtar.

Ef menn skoða þessar staðreyndir sést augljóslega fáránleiki íslenska kvótakerfisins þar sem menn leggja árlega heilan milljarð í að fylgjast með sjómönnum, hvort þeir séu með 1 eða 4 tonn eftir róðurinn eða kannski 5 tonn. Þetta eru bara svo litlar tölur í þessu samhengi og ég vona svo sannarlega að hæstv. sjávarútvegsráðherra fari að átta sig á (Forseti hringir.) þessum hlutum.