133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

rannsóknir á ýsustofni.

252. mál
[18:30]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er dálítið gaman fyrir einn stjórnmálafræðing að hafa það hlutverk að svara spurningum tveggja líffræðinga um líffræðileg málefni og er kannski ekki laust við að maður finni fyrir ákveðinni auðmýkt gagnvart slíkum spurningum. En þá ber þess að geta að sá sem hér stendur er líka þannig vaxinn að hlusta mjög glögglega eftir því þegar líffræðingar tala um stjórnmál. Þess vegna held ég að það sé bara ágætt að stjórnmálafræðingar tali stundum um líffræði eins og líffræðingar tala um stjórnmál og það sé ekki hrein verkaskipting í þjóðfélaginu þar sem einn talar ekki um málasvið annars. Hluti af stjórnmálum er einmitt að líffræðingar hafi skoðun á stjórnmálum og stjórnmálafræðingar á líffræði.

Eins og kunnugt er, svo ég fari með smálíffræðilegan fyrirlestur, eru þrjár tegundir af sandsílaætt hér við land, sandsíli, marsíli og trönusíli. Sandsílið finnst aðeins á grunnu vatni við fjörur sunnan- og suðvestanlands. Hámarkslengd þess er um 20 sentimetrar og það er mjög líkt marsíli að ytra útliti og þarf að telja hryggjarliði til að greina tegundirnar í sundur. Marsíli er langalgengasta sílistegundin hér við land og lifir á 10–15 metra dýpi en algengast á 30–70 metra dýpi og finnst allt í kringum landið þó það sé algengast sunnan- og suðvestanlands.

Beinar rannsóknir á sandsíli hér við land hafa til ársins 2006, fram á þetta ár, verið mjög takmarkaðar. Á árinu 2006 hrinti Hafrannsóknastofnun á hinn bóginn af stað rannsóknum þar sem tilgangurinn var að meta útbreiðslu og stofnstærð sílis. Þar sem um er að ræða fyrsta leiðangur í vöktun á síli er erfitt að meta magn á rannsóknarsvæðum og ekki fæst mælikvarði á magn sílis fyrr en eftir að svæðin hafa verið vöktuð í nokkur ár, enda byggir aðferðin á að mæla hlutfallslegar breytingar.

Ekki hafa farið fram sérstakar rannsóknir á tengslum ýsustofnsins við niðursveiflu í sandsílastofninum, en ég verð þó að vekja athygli á því að fram hafa farið rannsóknir á fæðu fiska sem safnað hefur verið af veiðiskipum alveg frá árinu 2001 og fæðuathuganir í stofnmælingarleiðöngrum Hafrannsóknastofnunar sem farnir eru á mismunandi árstímum. Slíkar rannsóknir á samhengi einstakra tegunda svo sem ýsu og sandsílis, auk vöktunar á stofnstærð sandsílisins ættu því á næstu árum að geta gefið gagnlegar upplýsingar um samspil stofnstærðar ýsu og breytinga í sandsílastofni við Ísland þó niðurstöður liggi ekki fyrir á þessari stundu. Ég vil hins vegar taka undir að ég held að þetta sé mjög áhugavert rannsóknarverkefni alveg sérstaklega í ljósi þess mikla vaxtar sem hefur verið í ýsustofninum. Við sjáum að ýsustofninn hefur verið að vaxa mjög hratt. Það er ekki bara bundið við einstaka árganga þó einn árgangur sé áberandi langstærstur í ýsustofninum eins og nú standa sakir. Aðrir árgangar eru líka sterkir og ég held að þetta sé mjög áhugaverð rannsóknarspurning sem vonandi fæst gleggra svar við þegar fram líða stundir. Hv. þingmenn sem hér eru inni geta örugglega svarað því betur hversu lengi slík rannsókn þarf að standa til að fá áreiðanlega vísindalega niðurstöðu á slíkum rannsóknum, en miðað við það að við höfum verið að gera rannsóknir af öðru tagi á t.d. fæðu fiska alveg frá árinu 2001, þá gæti ég ímyndað mér að það greiddi fyrir því að átta sig á því samspili sem hv. þingmaður var að spyrja um þó að rannsóknirnar á sandsílinu sjálfu hafi ekki hafist fyrr en á þessu ári. Ég geri ég ráð fyrir að þær rannsóknir hafi ekki síst byrjað vegna þess ástands sem hv. þingmaður lýsti og jafnvel við leikmenn tókum eftir, sem var hegðan sjófuglanna hér við land og það fór ekki fram hjá nokkrum okkar sem litum í kringum okkur að sjófuglarnir virtust hegða sér mjög misjafnlega.

Hins vegar heyrði maður líka frá sjómönnum og öðrum þeim sem fylgdust með þessu að að þeirra mati var ástand sjófuglanna dálítið misjafnt eftir landsvæðum. Kannski munu þessar rannsóknir varpa ljósi á það. Það getur einnig verið breytilegt milli ára, það þekkjum við. Varðandi kríustofninn var það einmitt greinilegt af máli manna sem maður heyrði í, m.a. í fjölmiðlum og einnig manna sem höfðu samband við mig og ég talaði við sem vöktu athygli á að ástandið kynni að vera eitthvað misjafnt milli landsvæða eins og svo sem eðlilegt er.