133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr.

298. mál
[18:53]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Það hafa orðið nokkrar breytingar á skipan héraðsdýralækna með tilkomu Landbúnaðarstofnunar. Fram að þeim tíma voru dýralæknarnir skipaðir beint af ráðherra en eru nú skipaðir af forstjóra þessarar nýju stofnunar. Það hefur í sjálfu sér lítið með þessa fyrirspurn mína að gera nema að við þá breytingu að Landbúnaðarstofnun var sett á fót voru gefin fyrirheit um að ekki yrðu gerðar neinar breytingar á skipan héraðsdýralækna, verksviði þeirra og umsýslu eins og verið hefur, eins og kemur fram í lögum um þá stofnun.

Það verður að segjast eins og er að verksvið héraðsdýralækna er mjög mismunandi eftir svæðum, eftir því hvort það er þéttbýli eða eftir því hvernig landbúnaður er stundaður á viðkomandi svæði. Nálægt höfuðborginni hafa sjálfstætt starfandi dýralæknar haft afkomu af því að þjóna bæði gæludýrum og síðan helst þá hrossarækt í þeim mæli að þeir hafi getað séð fyrir sér og haft af því fulla atvinnu. Því má leiða að því líkum að héraðsdýralæknisembættin á ákveðnum svæðum verði meira sem eftirlitsaðilar og, eins og sagt er, sitji meira bak við skrifborðið en þeir dýralæknar sem búa í víðfeðmum héruðum hafa nokkur tök á. Í lögum um héraðsdýralæknana er líka gert ráð fyrir því að víðfeðmustu svæðin séu undanþegin því að þar skuli eingöngu starfa einn dýralæknir, heldur eiga að vera þar tveir dýralæknar. Í lögunum eru talin upp umdæmi héraðsdýralæknanna en tekið fram að t.d. í Austurlandsumdæmi nyrðra, á Egilsstöðum og nágrenni, Eskifirði, Mjóafirði, í Neskaupstað, á Reyðarfirði, Seyðisfirði og í Norður-Múlasýslu, skuli starfa tveir dýralæknar. Þetta hefur einnig með vaktafyrirkomulag að gera. Nú vill svo til að þar eru ekki starfandi tveir héraðsdýralæknar. Það er staða eins og hálfs héraðsdýralæknis og það hefur skapað bæði mikið álag og mikla óánægju á Héraði að svo skuli hátta til og því legg ég fyrir hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra þær fyrirspurnir sem hann hefur hjá sér en ekki gefst tími til að lesa upp hér.