133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr.

298. mál
[18:57]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég fer fyrst yfir fyrirspurnir 1–3 sem hv. þingmaður leggur hér fyrir mig:

Þá er frá því að segja að ríkisstjórnin hefur samþykkt að ræða við Evrópusambandið um breytingu á undanþágu sem Ísland hefur haft við viðauka I við EES-samninginn sem varðar heilbrigði dýra og dýraafurðir. Tilefni þessara breytinga er umræða um innleiðingu og framkvæmd nýrrar matvælalöggjafar Evrópusambandsins á EES-svæðinu, en þar er m.a. um að ræða mikla hagsmuni fyrir Ísland vegna útflutnings sjávarafurða.

Löggjöf þessi nær yfir allt framleiðsluferlið frá hafi og haga til maga. Því er um verulega samræmingu að ræða á löggjöf um matvælaöryggi, þar með talið fóðri og starfsaðferðum við að tryggja öryggi afurða í fæðukeðjunni. Ísland hefur innleitt EES-löggjöf um eftirlit með sjávarafurðum en hefur að mestu haft undanþágu frá löggjöf um aðrar dýraafurðir og heilbrigði dýra. Að lokinni ítarlegri athugun á þessari löggjöf er ekki talin ástæða til að viðhalda undanþágu vegna dýraafurða en frjáls viðskipti með lifandi dýr — ég vil taka það alveg sérstaklega fram — og löggjöf þar að lútandi munu ekki falla undir þessar breytingar vegna sjúkdómavarna. Við verðum að standa mjög fast á þeirri sérstöðu sem við búum við.

Ein af forsendum þessarar niðurstöðu vegna dýraafurða er að Ísland grípi til nauðsynlegra mótvægisaðgerða, s.s. sýnatöku og rannsókna til að tryggja öryggi afurða sem fluttar verða inn til landsins. Auðvitað er gert ráð fyrir því í fjárlögum fyrir árið 2007 sem hér hafa verið til umræðu að koma til móts við þessa nýju þörf. Nú er unnið að frágangi ákvörðunar um breytingu á EES-samningnum vegna núgildandi undanþágu Íslands sem að hluta er lagt til að felld verði úr gildi. Samhliða þessari vinnu er verið að skoða hvaða breytingar eru nauðsynlegar á íslenskri löggjöf vegna innleiðingar á nýrri EES-löggjöf á þessu sviði. Þær breytingar munu verða framkvæmd eftirlits og stjórnsýslu á vegum ráðuneyta landbúnaðar, umhverfis og sjávarútvegs en auk þess koma utanríkis- og forsætisráðuneytin að þessu máli.

Meðal þeirrar löggjafar sem landbúnaðarráðuneytið hefur nú til skoðunar vegna tillagna um yfirtöku á löggjöf í viðauka I við EES-samninginn, eða EES-löggjafar um dýraafurðir og tiltekna dýrasjúkdóma, eru lög um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr. Hins vegar verður að taka skýrt fram að formleg yfirtaka á nýjum EES-skuldbindingum hefur ekki átt sér stað og verður ekki gerð án vandaðs undirbúnings. Því liggur ekki fyrir hvaða breytingar gera þarf á umdæmum héraðsdýralækna en þeir eru nú starfsmenn Landbúnaðarstofnunar. Ekki hafa heldur verið teknar ákvarðanir um breytingu á vaktsvæðum dýralækna. Landbúnaðarráðuneytið vinnur nú í samvinnu við önnur ráðuneyti sem málið varðar að skoðun löggjafar og tillögugerð vegna lagabreytinga sem nauðsynlegar teljast. Endanlegar tillögur í málinu munu taka mið af því hvaða kröfur verða gerðar um aðskilnað milli opinberra eftirlitsstarfa og almennrar dýralæknaþjónustu.

Hver sem niðurstaðan verður er nauðsynlegt að tryggja að almenn dýralæknaþjónusta í landinu verði ekki skert þó svo að hugsanlega þurfi að gera breytingar á umdæmisskrifstofum Landbúnaðarstofnunar þar sem héraðsdýralæknar starfa ásamt öðrum dýralæknum. Í viðræðum við ESB hefur komið fram að frá þeim tíma þegar formleg ákvörðun um breytingu á EES-samningnum var samþykkt fengi Ísland allt að 18 mánaða aðlögunartíma til að gera nauðsynlegar breytingar á löggjöf sem fellur undir landbúnaðarráðuneytið og síðan framkvæmd eftirlits þar sem þörf er á. Með hliðsjón af gangi mála og EES-skuldbindingum má því gera ráð fyrir að ekki þurfi að gera breytingar í þessum efnum fyrr en á árinu 2009.

Hvað varðar svo fjórðu spurninguna vil ég segja þetta: Því er til að svara að við umdæmisskrifstofur Landbúnaðarstofnunar í þessu umdæmi eru nú starfandi tveir héraðsdýralæknar á Austurlandi, annar í fullu starfi og hinn í hálfu. Í lögum nr. 66/1993 kemur fram að í umdæminu skuli starfa tveir héraðsdýralæknar eins og nú er. Með lögum nr. 80/2005, um Landbúnaðarstofnun, var gerð sú breyting að héraðsdýralæknar eru ekki lengur embættismenn heldur eru þeir ráðnir til starfa hjá Landbúnaðarstofnun. Það er mat Landbúnaðarstofnunar að umfang opinberra eftirlitsstöðva héraðsdýralækna í þessu umdæmi hafi minnkað það mikið á liðnum árum að ekki sé þörf á að hafa tvo héraðsdýralækna í fullu starfi á þessu svæði. Þegar þessi ákvörðun var tekin var einnig horft til þess að sjálfstætt starfandi dýralæknar hafa boðið almenna dýralæknaþjónustu á þessu svæði til viðbótar — sest þar að og byrjað að veita þjónustu — við það sem héraðsdýralæknar hafa gert (Forseti hringir.) í samræmi við núgildandi lög. Með þessu máli (Forseti hringir.) mun ég auðvitað fylgjast til að tryggja að því verði fullnægt.