133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

búseta í iðnaðarhúsnæði.

[10:38]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að benda hæstv. forseta á það að við erum að ræða um störf þingsins og ég sé ekki að þetta komi neitt nálægt störfum þingsins, ekki er þingið að leigja út þetta húsnæði eða þingmenn þannig að ég sé ekki að við séum að ræða málið undir réttum dagskrárlið.

Hins vegar er þetta alvarlegt mál og bendir náttúrlega á margbreytileika mannlífsins. Sumt fólk býr í skipum, sjómenn og líka sumt fólk sem hefur keypt sér skútur og býr í þeim allt árið, og sumt fólk býr í iðnaðarhúsnæði sem er orðið viðurkennt og hefur spunnist nokkur umræða um það þegar menn breyta iðnaðarhúsnæði í íbúðarhúsnæði fram hjá reglum. Allt þetta sýnir að það er einhver brotalöm í kerfinu og ég held að það sé mjög mikilvægt að við breytum reglum um skráningu í Þjóðskrá þannig að það sé hægt að skrá fólk í húsnæði, jafnvel þó að það sé ekki samþykkt. Það er þá betra að vita hvar fólkið er en að vita það ekki, sérstaklega fyrir þá sem stunda slökkvistörf og slíkt, menn þurfa að vita hvar fólkið býr.

Svo hefur líka tíðkast að hafa hér hugtakið „óstaðsettur í hús“ sem er mjög skrýtið fyrirbæri. Auðvitað eru einhverjir sem hvergi eiga heima, því miður, en það hefur líka komið í ljós að fólk hefur getað skráð sig inn á heimili annars án vitneskju og leyfis viðkomandi. Það þarf að laga þetta, það þarf að leita eftir heimild íbúðareigenda fyrir því að menn geti skráð sig inn á heimili þeirra. Svo hefur líka komið fyrir að menn hafa verið skráðir án þess að þeir vissu af því sjálfir, að einhver annar hafi skráð þá burt af heimili sínu og inn á annað. Það er einhver brotalöm í þessu kerfi öllu og ég legg til, og lagði til á fundi félagsmálanefndar í gær, að gerð yrði (Forseti hringir.) bragarbót á þessu.