133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

búseta í iðnaðarhúsnæði.

[10:40]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er eitt af mörgum málum sem varpa ljósi á afleitan aðbúnað fjölda fólks á Íslandi, bæði Íslendinga og innflytjenda. Hingað hefur verið mikið streymi á síðustu missirum af erlendu vinnuafli. Hlutfall þess á vinnumarkaði var um 2% fyrir 5–6 árum, nú er það hlutfall orðið um 5%. Eðlilega leiðir það til mikillar spennu, margt hefur farið úrskeiðis í málefnum útlendinga og innflytjenda á Íslandi, mjög margt meira að segja, eins og dæmin kenna okkur og sagan sýnir.

Það þarf að taka verulega á í málefnum útlendinga almennt. Ef það verður t.d. vík á milli Íslendinga og innflytjenda er það ávísun á alvarlega atburði, það er ávísun á tortryggni, andúð og kynþáttahyggju. Við eigum að bregðast við alvarlegum vísbendingum og þess vegna finnst mér gott og sjálfsagt mál að hv. málshefjandi taki þetta upp hér á vettvangi dagsins, hvort sem liðurinn heitir störf þingsins eða annað.

Einnig er þetta alvarleg vísbending um það ástand sem er á húsnæðis- og leigumarkaði. Það vantar húsnæði fyrir fátækt og efnaminna fólk, öryrkja, atvinnulaust fólk, fólk sem hefur orðið gjaldþrota. Það á við um bæði Íslendinga og útlendinga. Það er líka fjöldi Íslendinga sem hírist í hreysum sem er ósamþykkt íbúðar- og atvinnuhúsnæði af ýmsu tagi. Það er að sjálfsögðu mjög alvarlegt mál sem er vert að ræða hér á hinu háa Alþingi, þetta varðar algjöran lífsgrundvöll mikils fjölda Íslendinga. Þetta hefur lengi verið látið óáreitt, það þarf að taka á þessum málum, þetta er eins og ég sagði einnig vísbending um það að hér er fjöldi útlendinga og innflytjenda, tímabundið eða lengur, sem býr við ömurlegar félagslegar aðstæður. Það á að taka málið alvarlega og það á að taka á málefnum útlendinga á Íslandi.