133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

búseta í iðnaðarhúsnæði.

[10:47]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegur forseti. Þetta var merkileg og ansi spaugileg gusa sem kom frá hv. þingmanni Framsóknarflokksins, Hjálmari Árnasyni. (Gripið fram í: Er það?) Hvers vegna í ósköpunum ætti það að vera lýðskrum að vilja taka hér inn á vettvang hins háa Alþingis þetta mál sem er grafalvarlegt eins og fram hefur komið í fjölmörgum ræðum? Hvers vegna ætti það að vera lýðskrum?

Auðvitað fjallar málið um störf þingsins. Það er alveg rétt að það var rétt aðeins minnst á það í lok fundar félagsmálanefndar i gær, það var rétt aðeins minnst á það. Þetta fjallar um störf þingsins. Við höfum liggjandi í félagsmálanefnd frumvörp til laga um breytingar á lögum um lögheimili og breytingar á skipulags- og byggingarlögum. Ég vænti þess og vona svo innilega að sameinuð félagsmálanefnd geti þá staðið að breytingartillögum á því frumvarpi til að taka á þessum málum.

Ég vænti þess líka að þessi umræða leiði til þess að nú verði hafið eitthvert skipulegt eftirlit með þessu og reynt að bæta hér úr, a.m.k. þá skrá það fólk sem býr í svona húsnæði þannig að yfirvöld viti hvernig þessum málum er háttað.

Er þetta lýðskrum? Er það lýðskrum að tala hér um vandamál sem gæti verið stórt öryggisvandamál? Væri það lýðskrum ef það kæmi upp eldur í kvöld og einhverjir mundu farast í þeim eldsvoða, hv. þm. Hjálmar Árnason? Væri það lýðskrum að hafa vakið athygli á þessu hér í þinginu til þess að reyna að fá úrbætur í þessum málum? Ég segi nei, þetta er ekki lýðskrum. Þetta er ábyrg umræða um vandamál sem við verðum að taka á.

Þetta vandamál hefur á sér margar hliðar. Við höfum jafnvel dæmi um að fólk hafi sofið í sólbekkjum á yfirgefnum sólbaðsstofum. Við höfum heyrt af því að fólk búi í hjólhýsum og húsbílum, við heyrum jafnvel af því að fólk búi í gámum. Er lýðskrum að vekja athygli á þessu hér inni á hinu háa Alþingi? (Gripið fram í.)

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson talaði áðan um að sumir byggju í fílabeinsturni. Ég held að sá turn sé orðinn ansi hár og það er spurning hvort ekki sé kominn tími til að höggva aðeins neðan af honum þannig að íbúar hans átti sig á því að þeir þurfa að vera í betra sambandi við fólkið í landinu og þjóðina. Það hefur myndast hér djúp gjá milli þings og þjóðar. Þingmenn margir hverjir lifa í allt öðrum heimi en almenningur í þessu landi og það er m.a. ástæðan fyrir því að sumir hérna inni virðast eiga afskaplega erfitt með það að átta sig á þeirri umræðu sem við í Frjálslynda flokknum (Forseti hringir.) höfum vakið um málefni innflytjenda.