133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:48]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf):

Frú forseti. Ég geri hér grein fyrir áliti minni hluta fjárlaganefndar sem í sitja auk mín hv. þingmenn Ellert B. Schram, Guðjón A. Kristjánsson, Jón Bjarnason og Katrín Júlíusdóttir.

Það var margt merkilegt við ræðu hv. þm. Birkis J. Jónssonar hér áðan. Það verður þó að segja að þrátt fyrir tilraun til mikillar nákvæmni í öllum tillögum meiri hluta nefndarinnar náði hann þó ekki hæstu hæðum sem við höfum heyrt í þessum þingsal, þó vissulega hafi ýmislegt í ræðu hans minnt á þá tíð þegar ónefndur hv. þingmaður fór hér mikinn og tíndi til nær alla safnliði sem í breytingartillögum meiri hluta voru. Hv. þingmaður lét nú duga, ef ég hef heyrt rétt, að fara ekki mikið niður fyrir 4 millj. kr., en það verður að segjast eins og er að víða var leitað og áberandi var stoppið á einstaka stöðum í kjördæmi hv. þingmanns.

Frú forseti. Þannig var að í byrjun þings í haust lögðu allir þingmenn stjórnarandstöðunnar fram tillögu til þingsályktunar um nýja framtíðarskipan lífeyrismála. Tillagan er birt sem fylgiskjal með nefndaráliti minni hlutans. Megininntak hennar er að lífeyriskafli almannatryggingalaga verði endurskoðaður í fullu samráði við samtök aldraðra og öryrkja. Tillagan endurspeglar það sameiginlega viðhorf stjórnarandstöðunnar að eitt allra brýnasta verkefnið á sviði velferðarmála sé að bæta kjör öryrkja og aldraðra. Óumdeilt er að allur þorri þeirra sem þeim hópum tilheyra hefur ekki notið sambærilegs lífskjarabata og stór hluti landsmanna.

Meginmarkmið þingsályktunartillögunnar er að hækka lífeyrisgreiðslur aldraðra og öryrkja svo og að auka svigrúm þeirra til að afla sér tekna án þess að skerða lífeyrisgreiðslur. Sérstök áhersla er lögð á að bæta kjör þeirra sem minnst hafa og að tekin verði upp afkomutrygging sem byggð verði á skilgreindum neysluútgjöldum lífeyrisþega, einkum þeirra sem eingöngu hafa lífeyri sér til framfærslu.

Kostnaðarútreikningar sem gerðir hafa verið á þessum tillögum sýna að heildarútgjöld þegar allar tillögurnar eru komnar til framkvæmda eru tæpir 7,4 milljarðar kr., en nettóáhrif hjá ríkissjóði verða um 5,5 milljarðar kr. Stærsti útgjaldaliðurinn er hækkun tekjutryggingar í 85 þús. kr. hjá öldruðum og 86 þús. kr. hjá öryrkjum 1. janúar 2007 að viðbættum vísitölubreytingum. Sú tillaga kostar tæpa 3 milljarða kr. en hún gagnast best þeim sem minnstan lífeyri hafa og litla möguleika á að afla sér viðbótartekna.

Stjórnarandstaðan hefur sameinast um að leggja nú aðeins fram þessa tillögu sem breytingartillögu við 2. umr. um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2007. Með því leggur stjórnarandstaðan áherslu á að það er forgangsverkefni í þjóðfélaginu að bæta kjör lífeyrisþega. Það er hægt að gera með þeirri nýskipan lífeyrismála sem lögð er til í þingsályktunartillögunni, m.a. með því að koma á afkomutryggingu, svo lífeyrisþegar fái eðlilegan og sanngjarnan hlut í auknum hagvexti og þjóðartekjum.

Frú forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason mun gera nánar grein fyrir þeirri tillögu sem ég hef hér nefnt í ræðu sinni á eftir.

Frú forseti. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2007 er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs verði 357,9 milljarðar kr. og tekjur 373,4 milljarðar kr. Áætlaður tekjuafgangur nemur því 15,5 milljörðum kr. Nú við 2. umr. leggur meiri hluti fjárlaganefndar til að útgjöld hækki um 9,6 milljarða kr. en jafnframt að tekjuhlið frumvarpsins hækki um 3,1 milljarð kr. Samkvæmt þessu nemur áætlaður tekjuafgangur nú um 9 milljörðum kr. Um 4,6 milljarða kr. af gjaldaaukningunni má rekja til þeirrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að taka erlent lán til að bæta gjaldeyrisstöðu landsins. Vegna þessa hækkar fjármagnstekjuskattur sem ríkissjóður þarf að greiða af væntanlegri innstæðu hjá Seðlabankanum um 1,3 milljarða kr. Þá fær Landspítali – háskólasjúkrahús leiðréttingu á rekstrargrunni sem nemur 1 milljarði kr. Á móti vegur lækkun framlaga til Ábyrgðasjóðs launa, Atvinnuleysistryggingasjóðs og Fæðingarorlofssjóðs, samtals um 1,1 milljarð kr. Þá koma til aukin útgjöld vegna brottfarar hersins.

Miðað við fjárlög ársins 2006 nemur gjaldaaukningin 16,7% en sé miðað við áætlaða útkomu ársins 2006, eins og hún birtist í frumvarpinu, nemur hækkunin 12,8%, sem er veruleg aukning útgjalda milli ára.

Tekjur ríkissjóðs eru ávallt háðar mikilli óvissu um þróun efnahags- og atvinnumála. Í tengslum við ákvörðun um lækkun matarskatts verða verulegar breytingar á frumvarpinu. Nú er gert ráð fyrir að virðisaukaskattur lækki um 12 milljarða kr. og vörugjöld lækki um 465 millj. kr. Á móti þeim lækkunum kemur síðan endurmat á tekjuskatti lögaðila sem hækkar um 5 milljarða kr., hækkun áfengisgjalds um 3,8 milljarða kr., hækkun tekjuskatts einstaklinga um 1,5 milljarða kr. og hækkun fjármagnstekjuskatts og annarra eignatekna um tæpa 5 milljarða kr. Alls gera breytingartillögurnar ráð fyrir að tekjur aukist um 3,1 milljarð kr. frá því sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu.

Á undanförnum árum hafa tekjur ríkissjóðs ávallt verið mun hærri en fjárlög viðkomandi árs hafa gert ráð fyrir en það er m.a. vegna þess að þenslan í þjóðfélaginu hefur verið meiri en áætlanir hafa talið. Nokkur óvissa ríkir um þróun efnahagsmála á næsta ári og því erfitt að spá fyrir um hverjar tekjur ríkissjóðs verða. Verði um verulegan samdrátt að ræða stefnir í óefni því ekki verður séð af reynslu undanfarinna ára að ríkisstjórnin hafi þrek eða þor til að bregðast við breyttum aðstæðum og enn síður er þess að vænta af slíkri ríkisstjórn á kosningaári.

Helsta áhyggjuefnið er að stefnuleysi og handahófskenndar ákvarðanir um útgjöld ríkissjóðs til einstakra stofnana og verkefna hefur einkennt um of fjárlagagerð ríkisstjórnarflokkanna. Tekjugrunnur ríkissjóðs hefur veikst og byggist nú æ meir á þensluáhrifum í hagkerfinu. Þetta er þeim mun alvarlegra í ljósi þeirra staðreynda að uppsveiflan í hagkerfinu á undanförnum árum hefur ekki verið notuð til að undirbúa slíkar breytingar og treysta grunn velferðarkerfisins.

Þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins gerði ráð fyrir 4,2% hagvexti árið 2006 en aðeins 1% vexti árið 2007. Spáð var að verðlag hækkaði um 4,5% að meðaltali milli áranna 2006 og 2007 og að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann ykist um 3,8%. Gert var ráð fyrir að einkaneyslan drægist saman um 2% á milli ára og að atvinnuleysi ykist úr 1,3% á yfirstandandi ári í 2,1% árið 2007. Þá var áætlað að viðskiptahallinn lækkaði hratt á næstu árum eða úr 18% halla miðað við landsframleiðslu árið 2006 í 10,7% halla árið 2007 og 3,8% halla árið 2008.

Fjármálaráðuneytið hefur sent frá sér minnisatriði um áhrif af lækkun matarskatts. Við mat á áhrifum þeirra breytinga liggur til grundvallar þjóðhagsspá ráðuneytisins frá því í byrjun október sl. Afmörkuð endurskoðun hefur verið gerð á þessari spá í ljósi nýrra upplýsinga. Að mati fjármálaráðuneytisins er ekki um stórvægilegar breytingar að ræða. Helstu niðurstöður eru:

Búist er við að hagvöxtur verði um 1,5% í stað 1% árið 2007. Þá er gert ráð fyrir að einkaneysla verði 1% meiri en ráðgert var í fyrri spá. Þá er reiknað með að viðskiptahallinn aukist sem nemur um 0,4% af vergri landsframleiðslu.

Vísitala neysluverðs hækkar að meðaltali um 3% í stað 4,5% á milli áranna 2006 og 2007. Spáð er að verðbólgan verði um 2,2% í stað 2,5% á árinu 2008.

Reiknað er með að atvinnuleysi verði um 1,9% af vinnuafli í stað 2,1% árið 2007.

Að lokum lætur fjármálaráðuneytið þess getið að það muni gefa út endurskoðaða þjóðhagsspá í janúar 2007. Þar sem þjóðhagsspá er forsenda margra stórra liða í fjárlögum er það afar sérkennilegt að ráðuneytið ætli að gefa út nýja þjóðhagsspá í janúar á næsta ári, um mánuði eftir að fjárlög hafa verið samþykkt. Slíkt er þó í samræmi við vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum því of mikil tengsl við raunveruleikann eru ekki á áhugasviði ríkisstjórnarinnar.

Athyglisvert er að Seðlabankinn telur að tímasetning lækkunar matarskatts sé óheppileg og verið sé að leggja lóð á vitlausa vogarskál í baráttunni við verðbólguna. Bendir bankinn á að aðgerðirnar dragi ekki úr undirliggjandi verðbólgu og seinki aðlögun eftirspurnar. Seðlabankinn leggur áherslu á að þessar aðgerðir lækki aðeins mælda verðbólgu en ekki undirliggjandi verðbólgu. Þær munu auka kaupmátt ráðstöfunartekna og draga úr aðhaldi í ríkisfjármálum. Þetta leiðir til aukinnar eftirspurnar og verðbólgu. Telur bankinn að vegna þessa muni hagvöxtur aukast hálfu prósenti meira á árunum 2007–2008 en ella hefði orðið. Afleiðing að mati bankans er sú að það þarf 0,25–0,50% hærri vexti en ella til að ná settum markmiðum bankans.

Seðlabankinn metur það svo að aðgerðir stjórnvalda muni leiða til þess að verðbólgan verði 3,5% í stað 8% eftir eitt ár. Hins vegar muni verðbólga aukast á ný árið 2008 þegar áhrif lægri neysluskatta hverfa úr mælingu og eftirspurnin eykst á ný. Verðbólgan verði því 4,5% eftir tvö ár sem er langt yfir verðbólgumarkmiðum bankans. Þannig kemur enn einu sinni í ljós að ríkisstjórnin og Seðlabankinn eiga ekki samleið. Afleiðingarnar verður þjóðin að bera.

Hið opinbera hefur tvenns konar úrræði í stjórn efnahagsmála. Annars vegar er það peningamálastefnan sem er á forræði Seðlabankans og hins vegar ríkisfjármálin sem eru verkefni ríkisstjórnar. Um stjórn ríkisfjármála þarf í raun ekki að fjölyrða, hún er engin.

Í mars árið 2001 var undirritað samkomulag ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans um breytingar á fyrirkomulagi stjórnar peningamála. Meginmarkmiðið var stöðugleiki í verðlagsmálum sem fól í sér að árleg verðbólga yrði að jafnaði sem næst 2,5%. Er skemmst frá því að segja að þau markmið hafa ekki náðst og má þar helst um kenna svokallaðri efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar á liðnum árum. Hefur hún beinlínis unnið gegn markmiðum Seðlabankans með aðgerðum sínum. Ríkisstjórnin hefur ekkert gert til að draga úr þenslu og aukið ríkisútgjöldin jafnt og þétt. Þá hafa ákvarðanir ríkisstjórnarinnar um skattalækkanir einnig ýtt undir slíka þróun.

Þetta hefur leitt til verulegra hækkana á stýrivöxtum sem aftur á móti hefur leitt til vaxtahækkana og skuldaaukningar hjá skuldsettum heimilum. Þannig hefur ríkisstjórnin í raun unnið gegn hagsmunum heimilanna í landinu.

Ríkisstjórnin hefur gert mörg mistök í efnahagsstjórn á undanförnum árum og hefur því miður að því er virðist ekkert af þeim lært. Fyrstu mistökin voru tímasetning breytinga á húsnæðiskerfinu sem jók þenslu og verðbólgu til muna. Húsnæðisverð snarhækkaði sem og lán til íbúðarkaupa þar sem þau fylgdu markaðsverði. Nú lækkar húsnæðisverð og getur leitt til kreppu hjá fjölda fólks sem skuldar hlutfallslega meira í íbúðarhúsnæði sínu en áður hefur þekkst.

Önnur mistök ríkisstjórnarinnar eru óstjórn í ríkisfjármálunum. Þar hefur ríkt stjórnleysi og skortur á aga. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa verið vantrúaðir á beitingu ríkisfjármála sem hluta af efnahagstjórn. Slíkt ber að sjálfsögðu vott um fullkomna vanþekkingu á hagkerfinu. Þar við bætist að mat ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans á efnahagsástandinu er gjörólíkt og þessir aðilar vinna hvor í sína áttina og er þá ekki von á góðu.

Þriðju mistökin voru skattalækkanir á kolröngum tíma en einföld hagfræði segir skattalækkanir auka ráðstöfunarfé sem eykur neyslu og þar með þenslu í þjóðfélaginu. Aukin þensla var það sísta sem efnahagskerfið þurfti á þeim tíma.

Fjórðu mistökin felast í því að boðaðar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna stóriðjuframkvæmda urðu aldrei að veruleika.

Greiningardeildir bankanna hafa varað við þeirri þróun sem fram undan er, þ.e. tímabundin rýrnun kaupmáttar, lækkun eignaverðs, aukning vanskila og gjaldþrota. Greiðslubyrði heimilanna af lánum sem hlutfall af ráðstöfunartekjum hækkar og þrengir verulega að þeim sem hafa skuldsett sig á undanförnum árum. Þá gagnrýna greiningardeildirnar einnig að opinber fjármálastjórn taki ekki nægjanlegan þátt í hagstjórninni. Slík gagnrýni kemur að sjálfsögðu ekki á óvart, enda alkunn.

Þótt efnahagsstjórnin hafi verið veik á undanförnum árum tekur steininn úr þegar kemur að framkvæmd fjárlaga. Á undanförnum árum hefur ríkisstjórnin nánast sniðgengið öll lög og reglugerðir sem gilda um framkvæmd fjárlaga. Hún hefur verið harðlega gagnrýnd jafnt af alþingismönnum og Ríkisendurskoðun.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrir árið 2005 kemur t.d. fram að í árslok þess árs hafði ríflega fjórðungur fjárlagaliða ráðstafað fjármunum umfram heimildir eða alls 135 fjárlagaliðir. Af þeim voru meira en 96 með meira en 4% halla, en samkvæmt reglugerð um framkvæmd fjárlaga ber að grípa til sérstakra aðgerða ef farið er yfir þau mörk. Af þessum 96 stofnunum var 71 með meiri halla en 10%.

Bráðabirgðatölur fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2006 benda ekki til þess að ástandið hafi batnað. Í raun hefur sigið enn frekar á ógæfuhliðina hjá þeim stofnunum sem voru með halla í árslok 2005 og fleiri stofnanir eru komnar 10% eða meira fram út fjárheimildum. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2007 er ekki frekar en undanfarin ár tekið á vanda fjölmargra stofnana sem standa illa og þar með er hætta á að sú þjónusta sem Alþingi hefur með lögum ákveðið að veita almenningi verði ekki veitt eða stofnanirnar haldi áfram að safna halla.

Þá hefur Ríkisendurskoðun bent ítrekað á að mikil frávik frá fjárlögum ár eftir ár séu til marks um meira agaleysi í fjárlagagerð og framkvæmd fjárlaga hér á landi en tíðkast í öðrum löndum. Frávikin hafa að meðaltali verið um 15–20% undanfarin ár. Slík frávik þekkjast ekki í nálægum löndum, þar er borin sama virðing fyrir fjárlögum og öðrum lögum. Ríkisstjórnin hefur því miður með framkvæmd sinni grafið undan nauðsynlegri virðingu fyrir fjárlögum.

Gjaldahlið fjárlaga hefur verið vanáætluð ár eftir ár. Þegar fjárlög eru borin saman við ríkisreikning kemur í ljós að á árunum 2000–2004 hafa útgjöld farið tæplega 120 milljarða kr. fram úr fjárlögum sem er að meðaltali 10% frávik. Á árunum 1998–2005 hafa ríkisútgjöld aukist um 100 milljarða kr. Rekstur ríkisins hefur þannig aukist um 40% á þessu árabili en fullyrða má að þjónusta þess hefur ekki aukist hlutfallslega jafnmikið.

Frú forseti. Verklag rammafjárlaga var tekið upp árið 1992 en í því felst að ríkisstjórnin gerir tillögur að útgjaldarömmum fyrir hvert ráðuneyti sem síðan koma með tillögur um skiptingu útgjalda vegna málaflokka sinna í fjárlagafrumvarpinu. Því miður hefur þetta verklag um rammafjárlög aldrei náð lengra en til fjárlagafrumvarps hvers árs. Þegar frumvarpið hefur verið lagt fram má segja að allir rammar hverfi, hvorki meiri hluti fjárlaganefndar né ríkisstjórnin sjálf hafa virt rammana og í skýrslum Ríkisendurskoðunar hefur komið fram að ríkisstjórnin sjálf hafi í raun gengið ákafast fram gegn þeirri hugsun sem í rammafjárlögum felst.

Á undanförnum árum hafa mörg ráðuneyti beitt ýmsum aðferðum til að komast fram hjá þessum römmum. Nú hefur menntamálaráðuneytið tekið upp nýja siði í þeim efnum og líklega slegið öll fyrri met. Ef borin eru saman fjárlög 2006 og fyrirliggjandi frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2007 kemur í ljós að ýmis óskipt framlög menntamálaráðuneytisins aukast verulega og sum þrefaldast á milli ára.

Sem dæmi má nefna að framlag til viðfangsefnisins „Söfn, ýmis framlög, menntamálaráðuneytið“ hækkar úr 10,9 millj. kr. í 32,1 millj. kr. og framlag til liðarins „Ýmis framlög menntamálaráðuneytisins“ eykst úr 55,6 millj. kr. í 106,6 millj. kr. Á móti vegur að felld eru niður eða dregið verulega úr framlögum til ýmissa sjóða og félagasamtaka, svo sem til Skáksambands Íslands, Bridgesambands Íslands, Listasafns ASÍ, Nýlistasafnsins og Skátasambandsins.

Meiri hluti fjárlaganefndar hefur eðlilega talið nauðsynlegt að afturkalla þessar skerðingar en þó án þess að lækka t.d. áðurnefnd ýmis framlög menntamálaráðuneytisins. Þannig hefur ráðuneytinu tekist að auka verulega þær fjárveitingar sem eru til ráðstöfunar ráðherra.

Slík hækkun þekkist ekki hjá öðrum ráðuneytum og er eins og áður segir líklega nýtt met í árangri einstakra ráðuneyta til að brjóta niður ramma ríkisstjórnarinnar. Slíkt getur komið sér vel fyrir viðkomandi ráðherra á komandi kosningaári, enda hefur komið fram að hæstv. ráðherra hefur boðað nýja samninga við fjölmarga aðila sem hugsanlega geta orðið gott fjölmiðlafóður. Minni hluti fjárlaganefndar gagnrýnir slík vinnubrögð harðlega.

Frú forseti. Notkun reiknilíkana við skiptingu fjárveitinga á milli stofnana verður æ algengari. Lengst hefur reiknilíkan framhaldsskóla verið við lýði. Síðan hafa bæst við ný reiknilíkön, m.a. hjá landbúnaðarráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti. Reiknilíkan framhaldsskólanna hefur lengi verið gagnrýnt fyrir að taka ekki tillit til ýmissa ólíkra þátta í rekstri framhaldsskólanna. Minni hluti fjárlaganefndar hefur lengi haft efasemdir um gagnsemi líkansins við að mæla fjárþörf skólanna og oftar en einu sinni óskað eftir upplýsingum um forsendur þess.

Nú hefur verið upplýst af starfsmönnum menntamálaráðuneytisins, samanber það sem fram kemur í áliti minni hluta menntamálanefndar, að aldrei hafi raunveruleg fjárþörf skólanna ráðið fjárveitingum til þeirra. Möguleikar líkansins hafi heldur aldrei verið nýttir til fullnustu þar sem forsendur þess byggjast á fjárlögum ársins 1997 og því hafi raunveruleg fjárþörf skólanna aldrei verið metin og notuð í líkaninu. Líkanið hafi fyrst og fremst verið notað til að skipta því fjármagni sem til skipta hefur verið hverju sinni milli skólanna.

Frú forseti. Það er mat minni hluta fjárlaganefndar að nauðsynlegt sé að gerð verði óháð úttekt á öllum reiknilíkönum sem nú eru í notkun áður en fleiri reiknilíkön verða tekin í gagnið.

Frú forseti. Vegna þess að hv. þm. Birkir J. Jónsson fór í ræðu sinni áðan örlítið yfir þær lagfæringar sem gerðar voru á milli umræðna í fjárveitingum til framhaldsskóla er rétt að upplýsa nokkrar staðreyndir sem fram komu m.a. í gögnum sem starfsmenn menntamálaráðuneytisins dreifðu á fundi í fjárlaganefnd. Þar í plaggi sem ber yfirskriftina Hagræðing framhaldsskólans kemur fram í samanburði á milli grunnskóla og framhaldsskóla, annars vegar að störfum í grunnskólum hafi á árabilinu frá 2000–2005 fjölgað um tæp 25% á meðan nemendafjölgun á sama árabili hefur verið 1,6%. Á sama tíma hefur stöfum í framhaldsskólum fjölgað um 4,9% en ársnemendum um 25,7%. Við sjáum að samanburðurinn á milli grunnskóla og framhaldsskóla er með þeim hætti að það hlýtur að vekja sérstaka athygli og umhugsun. Yfirskriftin á því plaggi sem starfsmenn menntamálaráðuneytisins dreifðu í fjárlaganefnd var eins og ég sagði áðan Hagræðing framhaldsskólans.

Það er vissulega hægt að kalla hlutina hagræðingu ef það markmið næst fram að nota minna fjármagn og veita áfram sömu þjónustu. Því miður held ég að það hafi ekki tekist í framhaldsskólum landsins heldur hafi í raun og veru dregið úr ákveðinni þjónustu þar og þetta sýnir fyrst og fremst að fjárveitingar til skólanna hafa ekki fylgt nemendafjölguninni. Þessu til viðbótar hlýtur að vekja sérstaka athygli hvernig málum er háttað í grunnskólunum. Það getur vel verið að sumir segi að þar hafi verið farið óvarlega með fé og við getum þá minnkað örlítið þessa tölu en samt blasir við að í grunnskólum landsins hefur þjónustan verið að stóraukast. Meðan þjónustan hefur verið að aukast í grunnskólunum og framhaldsskólarnir hafa ekki fylgt í kjölfarið segir það sig sjálft að gífurlegur munur verður á þjónustunni á milli skólastiga og það verður auðvitað vart við það í framhaldsskólum landsins þegar nemendur koma úr grunnskólum og hafa fengið þar ákveðna þjónustu sem síðan er ekki við lýði í framhaldsskólunum. Þetta skapar gífurlega hættu á stórauknu brottfall úr framhaldsskólunum eða hreinlega að færri nemendur skili sér í framhaldsskólann.

Það er hins vegar yfirleitt markmið allra ríkisstjórna að auka sem mest hlutfall nemenda í ákveðnum árgöngum í framhaldsskólum. Því miður virðist það stefnumið ekki hafa náð til ríkisstjórnarinnar sem nú situr við völd. Þar er ætíð verið í nauðvörnum. Og það er rétt, frú forseti, að vekja athygli á því að það tókst nú ákveðin nauðvörn sem meiri hluti fjárlaganefndar stóð fyrir með stuðningi minni hlutans — sem ég vona að menn hafi metið, því að það var þverpólitísk samstaða um að það yrði eitthvað að gera gagnvart þeirri skerðingu sem fram kom í fjárlagafrumvarpinu. Af 300 milljónum tókst að ná 250 til baka. Það er auðvitað, eins og ég sagði, ekki nema nauðvörn, það tókst að bjarga fyrst og fremst þeim skólum sem hvað verst fóru út úr tillögum hæstv. ráðherra. Þannig tókst að lagfæra stöðu verknámsskóla og minni framhaldsskóla, sérstaklega úti um land, og auðvitað ber að þakka það sem vel er gert. En þegar litið er til framtíðar þurfum við, við hefðum auðvitað þurft að gera það nú og jafnvel enn þá fyrr, að snúa vörn framhaldsskólans í sókn. Það er kominn tími til að framhaldsskólinn fari í sókn. Í öllum alþjóðlegum samanburði sjáum við að við stöndum hvað verst í þeim samanburði gagnvart framhaldsskólanum. Nú er því tími til að snúa af þeirri braut en það er augljóst mál að til þess þurfum við að skipta um ríkisstjórn.

Frú forseti. Það er fleira athyglisvert sem gerst hefur á undanförnum árum. Til dæmis að heildarskattbyrði jókst um rúm 10% á 10 árum samkvæmt nýrri skýrslu OECD. Skattheimtan var 32,1% af vergri landsframleiðslu árið 1995 en 42,4% samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir árið 2005. Af þeim 24 löndum sem OECD lítur til var mesta aukning í skattheimtu á milli ára á Íslandi, eða um 3,7 prósentustig. OECD ber einnig saman hvar mestu breytingar hafa orðið á skattheimtu sem hlutfalli af landsframleiðslu á milli áranna 1995 og 2004. Samkvæmt þeim lista er Ísland í öðru sæti hvað aukningu varðar, með tæplega 8% aukningu.

Þegar litið er til skatta á tekjur og hagnað hafa þeir nálega tvöfaldast á sama tímabili, úr 10,7% af landsframleiðslu árið 1995 í 19,5% árið 2005. Ef einungis eru skoðaðir skattar á tekjur einstaklinga hafa þeir aukist úr 9,7% af landsframleiðslu árið 1995 í 14,3% árið 2004. Þannig blasir við að tekjuskattur af einstaklingum hefur aukist um tæpan helming á tímabilinu. Skattar á tekjur fyrirtækja hafa aukist um 0,4 prósentustig á sama tímabili, úr 0,9% af landsframleiðslu árið 1995 í 1,3 árið 2004. Eignaskattur hefur hins vegar dregist saman á tímabilinu, úr 2,8% af landsframleiðslu í 2,5%. Skattheimta af vöru og þjónustu stendur nánast í stað, var 15,2% af landsframleiðslu árið 1995 en var 15,9% árið 2004.

Tölur OECD benda til þessa að u.þ.b. helmingur aukningar heildarskattbyrðar sé kominn til vegna aukins tekjuskatts einstaklinga. Þetta er athyglisvert í ljósi þess hvernig skattbyrði mismunandi hópa hefur þróast. Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, hefur sýnt fram á að 90% þjóðarinnar hafa tekið á sig aukna skattbyrði. Einungis sá tíundi hluti þjóðarinnar sem hefur hæstar tekjurnar ber nú minni skattbyrði.

Mest hefur dregið úr skattbyrði þeirra sem hæstar hafa tekjurnar. Skattbyrði þeirra hefur helmingast. Árið 1993 námu skattgreiðslur þessa hóps 35% af tekjum en voru árið 2004 15,8% af tekjum. Hins vegar hefur mesta aukning skattbyrðar orðið í tekjulægstu hópunum þar sem hún hefur í sumum tilvikum margfaldast. Ef litið er til tekjulægsta fjórðungsins hefur skattbyrði þeirra tvöfaldast eða meira. Stefán Ólafsson skýrir það svo að rýrnun skattleysismarka hafi aukið skattbyrði lágtekju- og millitekjuhópa meðan óvenjulágur fjármagnstekjuskattur skýri einkum lækkaða skattbyrði hátekjufólks.

Afleiðingar þessa birtast í tölum um tekjuójöfnuð innan landa Evrópska efnahagssvæðisins þar sem Ísland er í fjórða sæti þeirra þjóða þar sem tekjuskiptingin er ójöfnust samkvæmt svokölluðum Gini-stuðli. Einungis Lettland, Portúgal og Tyrkland búa við meiri ójöfnuð og Bretland og Eistland koma næst á eftir Íslandi á listanum. Þessu er algerlega öfugt farið á Norðurlöndunum, en Svíþjóð, Danmörk, Finnland og Noregur mynda hóp þeirra landa þar sem tekjuskiptingin er jöfnust, ásamt Slóveníu og Tékklandi.

Frú forseti. Skuldir heimilanna eru nokkuð sem vert er að hugleiða. Þær voru um 1.200 milljarðar kr. um mitt ár og höfðu aukist um 276 milljarða kr. frá sama tíma á síðasta ári. Jafngildir aukningin tæplega 29%. Skuldirnar hafa meira en fjórfaldast frá miðju ári 1995 þegar þær stóðu í 299 milljörðum kr. Sú breyting hefur einnig orðið á tímabilinu að bankakerfið hefur aukið hlut sinn af skuldum heimilanna úr um 19% árið 1995 í 53% nú.

Skuldir heimilanna voru um 540 milljarðar kr. í lok síðasta árs og höfðu þá aukist um 214 milljarða kr. frá upphafi ársins. Skuldirnar hafa enn aukist það sem af er ári og voru um 680 milljarðar kr. í október, sem jafngildir tæplega 26% aukningu. Verðtryggðar skuldir heimilanna voru um 500 milljarðar kr. í október en voru 416 milljarðar kr. í byrjun árs og höfðu þá aukist úr 197 milljörðum kr. árið áður.

Í Peningamálum, riti Seðlabankans, frá því í október kemur m.a. fram það mat bankans að á heildina litið hafi fjármálaleg skilyrði heimilanna versnað og er í því samhengi vísað til hærri vaxta húsnæðislána og aukins kostnaðar við yfirdráttarlán.

Fleiri hafa aukið skuldir sínar en heimilin á undanförnum árum og þar koma auðvitað sveitarfélögin við sögu. Skuldir sveitarsjóða hafa aukist á síðustu árum úr 122 milljörðum kr. í lok árs 2003 í 136 milljarða kr. í lok síðasta árs. Hafa skuldir sveitarsjóða á hvern íbúa því aukist úr 422 þús. kr. í 455 þús. kr.

Afkoman sveitarfélaganna er mjög breytileg og eiga mörg þeirra í verulegum fjárhagserfiðleikum. Á síðasta ári skiluðu 60 sveitarfélög jákvæðri afkomu sem nam 6,4 milljörðum kr. meðan 37 sveitarfélög voru rekin með 1,5 milljarða kr. halla. Um 48 þúsund manns, eða 16% þjóðarinnar, búa í sveitarfélögum sem standa ekki undir rekstri. Brýnt er að tekið verði á málefnum sveitarfélaganna svo allir íbúar landsins njóti jafnaðar þegar kemur að þeirri grunnþjónustu samfélagsins sem sveitarfélögin eiga að sinna.

Fram hefur komið að sveitarfélög hafi orðið fyrir tekjuskerðingu, m.a. vegna fjölgunar einkahlutafélaga. Þetta hefur t.d. þau áhrif að rýra útsvarstekjur sveitarfélaganna en auka um leið tekjur ríkissjóðs af fjármagnstekjuskatti. Sveitarstjórnarmenn hafa ítrekað farið fram á leiðréttingu á tekjustofnum í kjölfar þessara breytinga en ekki haft erindi sem erfiði. Einkahlutafélög voru rúmlega 20.000 á árinu 2004 en voru orðin 25.600 um mitt þetta ár. Tekjur ríkisins af fjármagnstekjuskatti hafa stóraukist, úr 9 milljörðum kr. árið 2004 í 21,7 milljarða kr. á síðasta ári. Það ár höfðu 6.600 fjölskyldur hærri fjármagnstekjur en launatekjur og 2.200 framteljendur höfðu engar aðrar tekjur en fjármagnstekjur.

Frú forseti. Þetta segir okkur að málefni sveitarfélaganna eru ekki í því horfi sem ætti að vera þrátt fyrir að æði oft hafi farið af stað verkefni í að taka á málunum, setja málefni sveitarfélaganna í forgang og efla sveitarstjórnarstigið. Þetta hefur því miður ekki náð fram að ganga og ætti að vera hverjum manni að vera ljóst að á þessum málum verður að taka heildstætt. Það verður að skoða myndina alla, ákveða hvaða verkefni eiga heima hjá sveitarfélögunum, áætla hvað þau verkefni kosta og fara síðan yfir tekjustofna þeirra í heild sinni þannig að tekjustofnar þeirra verði t.d. blanda af beinum og óbeinum sköttum. Það þarf líka að taka ákvörðun um hversu stór sveitarfélögin þurfi að vera til að geta sinnt þeim verkefnum sem menn telja að eigi að vera hjá þeim.

Vegna þess vantrausts sem allt of lengi hefur ríkt milli sveitarfélaga og ríkisvaldsins má segja að þau mál stöðvist alltaf á miðri leið. Ég varð vitni að því vegna þess að ég tók töluverðan þátt í síðasta átaki um eflingu sveitarstjórnarstigsins. Ég sá hve mikið þetta vantraust hefur skemmt fyrir. Við sjáum hversu lítið gekk í því átaki og sveitarstjórnarmenn kenndu nær eingöngu um samsetningunni á tekjustofnunum og að ekkert fylgdi nema orðagjálfur um væntanleg verkefni. Það er því brýnasta verkefnið gagnvart þessum málaflokki að byggt verði upp á ný traust á milli ríkisvaldsins og sveitarstjórnarstigsins.

Frú forseti. Vaxtabótakerfið hefur oft komið til umræðu. Í það hefur nokkuð verið krukkað undanfarin ár. Ríkisstjórnin boðar 430 millj. kr. hækkun framlaga vegna vaxtabóta í fjárlagafrumvarpi. Þrátt fyrir það verða útgjöld til vaxtabóta 226 millj. kr. lægri en þau voru árið 2003. Ef tekið er mið af þróun vísitölu neysluverðs frá 2003 til september 2006 eru áætluð útgjöld vegna vaxtabóta, að raungildi, 968 millj. kr. lægri nú (Gripið fram í: Af hverju 2003?) en þá. Hv. þingmaður, 2003 er viðmiðunarárið í fyrri töflu líka.

Það er auðvitað eðlilegt að við miðum við eitthvert ár. Hv. þingmaður getur trúlega farið enn aftar í tímann til að finna viðmið eða beitt hinni alkunnu aðferð sem ríkisstjórnin og hv. þingmaður eru þekkt fyrir, að fara eins stutt aftur í tímann og hægt er til að hægt sé að segja að um aukningu sé að ræða þegar ríkisstjórnin hefur skert útgjöldin nokkur ár á undan. Sömu aðferð hafa menn notað gagnvart persónuafslættinum, að skerða hann og skerða en auka síðan nokkur ár í röð og segja: Við erum alltaf að bæta stöðuna og erum á réttri leið. Þessi aðferð hefur á stundum, því miður, gengið. Hún teystir á skammtímaminni fólks. En það er ljótur leikur, hv. þingmaður, að treysta á það. Enginn veit hvaða kosningar það verða að slíkt muni ekki ganga lengur.

Ríkisstjórnin hefur beitt margvíslegum aðferðum á kjörtímabilinu til að skerða vaxtabætur. Í fyrsta lagi er sífellt lægri hluti eftirstöðva skulda lagður til grundvallar við útreikning vaxtabóta. Árin 2003 og 2004 miðuðust vaxtabætur við 7% eftirstöðva skulda. Árið 2005 var þetta hlutfall lækkað í 5,5% og síðan í 5% á þessu ári. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu á ekki að ganga nema til hálfs við að vinda ofan af skerðingunni og miða við 6%. Í öðru lagi voru einungis greidd út 90% af hámarksupphæð vaxtabóta árið 2004 og 95% árið 2005. Í þriðja lagi hefur húsnæðisverð hækkað mikið á tímabilinu og langtum meira en eignaviðmið til útreiknings vaxtabóta, sem stóð í stað á milli áranna 2005 og 2006.

Frú forseti. Ríkisstjórnin hefur lagt í vana sinn að lofa ýmsu. Ríkisstjórnin lofaði endurskoðun vaxtabóta við gerð kjarasamninga í vor. Frumvarp hennar um að hækka lágmark eignaviðmiðunar að frádregnum skuldum við útreikning vaxtabóta liggur nú fyrir Alþingi. Alþýðusamband Íslands hefur lýst því yfir að með frumvarpinu hafi ríkisstjórnin ekki efnt þau loforð sem voru gefin við gerð kjarasamninga og ekkert samráð hafi verið haft við ASÍ um vinnslu málsins þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um. Nú síðast á föstudag gekk forusta ASÍ á fund fjármála- og forsætisráðherra en án árangurs. Ríkisstjórnin ætlar greinilega að halda áfram á sömu braut þrátt fyrir loforð um annað.

Það er með ólíkindum að gengið skuli til samninga en ekki megi treysta aðila eins og ríkisstjórninni. Þetta er því miður enn eitt dæmi um að ríkisstjórninni er ekki hægt að treysta fyrir samningum sem þessum. Hún sýnir ekki einu sinni þá lipurð að hafa örlítið samráð við þá sem við er samið. En, frú forseti, við vonum að gera megi einhverjar lagfæringar á þessu í nefndinni þar sem málið er nú statt.

Frú forseti. Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2007, svo og breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar, bera með sér að kosningar eru á næsta ári og því er aðeins um bráðabirgðatillögur að ræða. Það bíður nýrrar ríkisstjórnar að gera raunhæft fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár. Þess vegna er það frumvarp sem hér er til umfjöllunar og breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar við það aðeins hluti af tilraun ríkisstjórnarflokkanna til að tryggja áframhaldandi setu sína í ríkisstjórn.

Ábyrgðarleysi ríkisstjórnarflokkanna í ríkisfjármálum hefur verið áberandi undanfarin ár en nú keyrir um þverbak. Það frumvarp sem hér liggur fyrir ásamt breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar er plagg sem lítið mark er takandi á, m.a. vegna þess hve efnahags- og tekjuforsendur eru óvissar og útgjaldaákvarðanir handahófskenndar. Allt bendir til þess að ríkisstjórnarmeirihlutinn geri ekki ráð fyrir að framfylgja þurfi frumvarpinu og þess vegna er frekar horft til fjölmiðlaþarfar einstakra ráðherra en mikilvægis fjárlaga fyrir efnahagsmál þjóðarinnar. Frumvarpið segir allt sem segja þarf um nauðsyn þess að ríkisstjórnin láti af hendi völdin á vori komanda.

Frú forseti. Ég hef gert grein fyrir áliti minni hluta fjárlaganefndar en í minni hluta fjárlaganefndar eru auk mín hv. þm. Ellert B. Schram, Guðjón A. Kristjánsson, Jón Bjarnason og Katrín Júlíusdóttir.