133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[12:27]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef veitt því athygli að tillögur minni hlutans á Alþingi snúa ekki að heilbrigðis-, mennta- og velferðarmálum. Minni hlutinn á Alþingi gerir engar tillögur um að auka framlög til mennta- eða heilbrigðiskerfisins. Ég ætla að láta kanna það í dag hvort þetta eigi sér hliðstæðu, að minni hluti eða stjórnarandstaða á þingi skuli ekki koma með neinar tillögur vegna stofnana sem þurfa aukin framlög eftir viðtöl sem við í hv. fjárlaganefnd höfum átt við fjölmargar stofnanir á vegum ríkisins. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Hvers lags ábyrgðarleysi er þetta af hálfu stjórnarandstöðunnar (Gripið fram í.) að koma ekki með neinar tillögur hvað varðar þessar stofnanir (Gripið fram í.) við 2. umr. fjárlaga?

Hæstv. forseti. Það er greinilegt að stjórnarandstaðan hefur enga stefnu í þessum málefnum og ætlar að láta reka á reiðanum hvað þetta varðar. Hún setur ekki nokkrar tillögur fram um að bæta stöðu heilbrigðisstofnana, framhaldsskóla eða annarra stofnana af því tagi. Það er stóri punkturinn í þessari umræðu. Stjórnarandstaðan hefur ekki getað komið sér saman um sameiginlegar tillögur um þessa mikilvægu málaflokka. Það veit ekki á gott ef stjórnarandstaðan ætlar að reyna að mynda ríkisstjórn eftir næstu kosningar, að ágreiningurinn sé svo mikill sem raun ber vitni.

Ég kalla eftir því að stjórnarandstaðan skýri það út í þessari umræðu hvernig margar ríkisstofnanir geti búið við óbreyttar fjárheimildir (GAK: Það er von þú spyrjir, þetta eru þínir menn.) að teknu (Gripið fram í.) tilliti til þeirra tillagna sem við í meiri hlutanum höfum lagt fram. Ég skora á hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar að kynna sér þær.