133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[12:42]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2007. Stjórnarandstöðuflokkarnir á þingi, Frjálslyndi flokkurinn, Samfylkingin og Vinstri hreyfingin – grænt framboð, skila sameiginlegu nefndaráliti við 2. umr. fjárlaga. Þessir flokkar skila einnig sameiginlegum breytingartillögum sem lúta fyrst og fremst að einum ákveðnum málaflokki sem að mati þessara flokka er brýnastur af öllum brýnum.

Hv. þm. Einar Már Sigurðarson hefur mælt fyrir sameiginlegu nefndaráliti okkar þingmanna sem sæti eigum í fjárlaganefnd í minni hlutanum, sem eru auk Einars Más Sigurðarsonar, Ellert B. Schram, Katrín Júlíusdóttir, Guðjón Arnar Kristjánsson og sá sem hér stendur.

Ég vísa til mjög ítarlegs nefndarálits, sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson mælti hér fyrir, hvað varðar sameiginlegar áherslur um fjárlagatillögurnar og nefndarálit sem liggja fyrir við 2. umr. fjárlaga. Ég mun hins vegar fyrst og fremst gera grein fyrir sameiginlegum breytingartillögum okkar sem undirstrika, eins og ég sagði áðan, þær áherslur og þá forgangsröðun sem við teljum nú hvað allra brýnastar.

Þær lúta fyrst og fremst að því að tryggja afkomu og tekjugrunn elli- og örorkulífeyrisþega, hópa í samfélaginu sem hafa mátt berjast fyrir bættum kjörum sínum. Tekist hefur verið á um kjör þessara hópa á Alþingi. Þar skiptast menn í flokka, annars vegar í ríkisstjórnarflokka Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem ekki hafa hirt um að bæta kjör þessara hópa sem skyldi eða látið þau fylgja eftir öðrum kjarabótum í samfélaginu, og hins vegar velferðarflokkana, sem eru Vinstri hreyfingin – grænt framboð, Frjálslyndi flokkurinn og Samfylkingin, sem standa nú saman við fjárlagaafgreiðsluna.

Frú forseti. Við þingmenn fáum allmörg bréf og tölvupósta frá fólki víðs vegar að á landinu þar sem það ber upp erindi sín eða tjáir viðhorf sín. Þessi bréf og þessi samskipti eru okkur mjög mikilvæg. Þau halda okkur betur í sambandi við þjóðina, við lífið eins og það gerist í raun. Ég fékk eitt slíkt bréf í gær sem ég ætla að lesa smákafla úr, þó að bréfritari vilji ekki láta nafns síns getið, en það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Mig langar til að senda þér póst um það sem ég má búa við. Ég var húsasmiður í aðalstarfi öll mín ár“ — þessi maður er fæddur 1946 — „en sjúkraflutningsmaður í aukastarfi í um 30 ár. Báðum þessum störfum varð ég að hætta af heilsufarsástæðum, var úrskurðaður öryrki árið 2004. Ég átti hlut í trésmiðju en seldi af framangreindum ástæðum. Af sölu fékk ég 10% fjármagnstekjuskatt og í viðbót 45% skerðingu frá Tryggingastofnun. Ég átti viðbótarlífeyrissparnað. Hann var skattlagður um 36,72% og síðan aftur skerðing um 45% frá Tryggingastofnun. Til að endar nái saman hjá okkur hjónum fór konan að auka við sig vinnu, og aftur 45% skerðing frá Tryggingastofnun.

Við hjónin eigum ungmenni í háskóla og það kostar sitt. Ég tala nú ekki um þegar um landsbyggðarfólk er að ræða. Mér er ofboðið hve hart er sótt að mér og mínum og nú spyr ég þig, hv. þingmaður, hvað ætlar þú og þinn flokkur að gera í málefnum öryrkja? Þó að ég sé landsbyggðarmaður þá er þetta mál allra landsmanna. Mér finnst ekki nóg að talað sé um skilning og síðan ekkert meir.

Með von um viðbrögð okkur öllum til heilla.“

Í gær, 22. nóvember, var stutt viðtal í Ríkisútvarpinu sem hafði yfirskriftina: „Öryrki fær ekki viðbótarlífeyrissparnað sinn.“ Þar stendur, með leyfi forseta:

„9.000 krónur standa eftir af 400.000 króna lífeyrissparnaði konu sem hugðist nýta peningana eftir að hún varð öryrki. Afganginn tekur skatturinn og svo skerðir Tryggingastofnun lífeyrissgreiðslur, bæði konunnar og eiginmanns hennar.

Bára Pálmarsdóttir var greind öryrki fyrir ári síðan […]. Þegar hún og maðurinn hennar, sem er ellilífeyrisþegi, þurftu að ráðast í umfangsmiklar viðgerðir á húsinu sínu hugðust þau nýta sér viðbótarlífeyrissparnaðinn í stað þess að taka lán. Bára tók út tæpar 400.000 krónur. Skatturinn tók tæplega 147.000 af þeirri upphæð og síðan kom í ljós að Tryggingastofnun skerti bætur hennar og eiginmanns hennar.“

Bára Pálmarsdóttir segir: „Svo voru skertar tekjur hjá manninum mínum um 95.000 og hjá mér um 149.000 vegna þess að ég er öryrki.“

Þá er hún spurð: „Og hvað var þá mikið sem að stóð eftir?“

Bára Pálmarsdóttir: „Þegar allt er komið til að þá eru það 9.000.“

Frú forseti. Er að furða þó að fólk í samfélaginu, stórir hópar, spyrji: Hvað ætlið þið að gera? Því erum við að svara í þeim sameiginlegu tillögum sem við leggjum til hér, þingmenn og þingflokkar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Frjálslynda flokksins og Samfylkingarinnar. Við viljum að tekið sé í alvöru á málum þess fólks sem hér er um að ræða en ekki bara talað. Í þingsályktunartillögu sem þessir flokkar fluttu sameiginlega í upphafi þings í haust, mál nr. 3 á þingskjali 3, en þar fluttu allir þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna tillögu til þingsályktunar um nýja framtíðarskipan lífeyrismála, stendur, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að endurskoða lífeyriskafla laga um almannatryggingar. Endurskoðunin verði unnin í fullu samráði við samtök aldraðra og öryrkja. Skoðað verði samspil almannatrygginga og lífeyriskerfisins með það að markmiði að einfalda tryggingakerfið, draga úr skerðingaráhrifum tekna og auka möguleika lífeyrisþega til að bæta kjör sín. Þá verði komið á afkomutryggingu sem tryggi viðunandi lífeyri. Til undirbúnings afkomutryggingar verði þegar í stað gerð úttekt á framfærslukostnaði lífeyrisþega sem grunnlífeyrir og tekjutrygging byggist á. Eftirfarandi atriði verði m.a. lögð til grundvallar í nýrri framtíðarskipan lífeyrismála:“

Það eru einmitt um þau atriði, frú forseti, sem við flytjum breytingartillögu.

Við fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins gerum að tillögu okkar að tekjutrygging ellilífeyrisþega hækki, í samræmi við fyrrnefnda þingsályktunartillögu okkar frá haust, í 602 millj., tekjutrygging örorkulífeyrisþega í 350 millj. og vegna nýrrar framtíðarskipanar lífeyrismála komi 6.431.700 millj. eða samtals 7 milljarðar 383 millj. og 700 þús.

Frú forseti. Þessir hópar hafa svo sannarlega staðið eftir. Tillagan gerir ráð fyrir að ný tekjutrygging aldraðra verði 85 þús. kr. á mánuði og öryrkja 86 þús. kr. frá 1. janúar 2007 að viðbættum vísitölubreytingum sem orðið hafa. Frá sama tíma verði dregið úr skerðingaráhrifum tekna þannig að í stað þess að skattskyldar tekjur yfir frítekjumarki skerði tekjutryggingu um 45% þeirra tekna sem umfram eru, verði hlutfallið 35%.

Frítekjur vegna atvinnutekna lífeyrisþega verði 75 þús. kr. á mánuði frá 1. janúar 2007 og skerði ekki tekjutryggingu. Skoðað verði hvort nýta megi hluta þessa frítekjumarks fyrir tekjur úr lífeyrissjóði. Öryrkjar hafi val um þetta nýja frítekjumark eða eldri reglu eftir því hvort er þeim hagstæðara.

Frú forseti. Ég vil sérstaklega leggja áherslu á þetta atriði, frítekjumark vegna atvinnutekna. Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara hljóðaði upp á frítekjumark upp að 200 þús. kr. ári sem kæmi til framkvæmda 1. janúar 2009. Því hefur reyndar verið flýtt vegna mikils þrýstings og að það verði 300 þús. kr. frá 1. janúar næstkomandi. Það var ánægjulegt að ríkisstjórnin skyldi láta undan þrýstingi bæði stjórnarandstöðunnar og samtaka elli- og örorkulífeyrisþega gagnvart þessu en það er lítið hænufet sem þarna er stigið þó að í sjálfu sér beri að þakka það litla sem er.

En fátt er mikilvægara en að hinni samfélagslegu umgjörð lífeyris og annarra slíkra almannagreiðslutekna fylgi líka hvatning til þess að þeir sem geti verði sem lengst á vinnumarkaðnum, geti stundað vinnu, hlutastarf, tímabundið starf eða fullt starf, eftir því sem viðkomandi er fær um og hentar án þess að það skerði grunnlífeyri fólks sem komið er á hann og á rétt á honum samkvæmt lögum þar um.

Við heyrum stöðugt og lögð er áhersla á það að byggð séu upp sveigjanleg starfslok. Að fólk geti valið um hve hratt það hættir störfum eða fer út af hinum svokallaða vinnumarkaði. Við vitum líka að fátt er betra og heilsusamlegra, bæði andlega og líkamlega, fyrir fólk en að geta verið sem lengst á vinnumarkaði og unnið eins og það hefur þrek og vilja til. Í þessu kerfi þarf því að vera hvatning sem hér er einmitt lögð til.

Þá leggjum við til að ráðstöfunarfé, eða vasapeningar svokallaðir, við dvöl á stofnun hækki um 50% frá 1. júlí 2006 ásamt því að frítekjumark gagnvart tekjum þeirra sem dvelja á stofnunum verði hækkað úr 50 þús. kr. í 75 þús. kr. Frá 1. janúar 2008 verði stefnt að því að breyta greiðslufyrirkomulagi á daggjaldastofnunum fyrir aldraða í svipaða veru og gildir fyrir fatlaða á sambýlum. Einnig að afnumin verði að fullu tengsl lífeyrisgreiðslna við atvinnu- og lífeyristekjur maka og að öryrkjar haldi aldurstengdri örorkuuppbót þegar farið er á ellilífeyri.

Frú forseti. Við í stjórnarandstöðuflokkunum, velferðarflokkunum Vinstri hreyfingunni grænu framboði, Samfylkingunni og Frjálslynda flokknum, leggjum áherslu á að það sé forgangsatriði að bæta kjör þessa fólks og styrkja á það á atvinnumarkaðnum og einnig að tryggja því grunnlífeyri og mannsæmandi kjör.

(Forseti (JóhS): Nú háttar svo til að forseti mun gera matarhlé eftir eina mínútu til klukkan hálftvö. Ég spyr hv. ræðumann hvort hann vilji ljúka máli sínu á einni mínútu eða fresta máli sínu til klukkan hálftvö.)

Ég fresta bara máli mínu, frú forseti.