133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[13:51]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Framsóknarflokkurinn þarf ekkert á því að halda að þingmenn Vinstri grænna skilgreini stefnu flokksins. Framsóknarflokkurinn er félagshyggjuflokkur og þegar hv. þingmaður lætur að því liggja í hverri einustu ræðu sem hann heldur um fjárlög hverju sinni, að stjórnvöld hafi verið að skerða framlög til heilbrigðis- og velferðarmála, þá er það rangt. Ég veit ekki hve oft ég hef þurft að koma hingað upp til þess að leiðrétta málflutning hv. þingmanns í þeim efnum.

Það er búið að auka framlög til heilbrigðismála frá árinu 1998 um 27,5 milljarða að raungildi eða um 49%. Það er búið að auka framlög til almannatrygginga sem tíðrætt er um frá árinu 1998, um 23 milljarða að raungildi, að teknu tilliti til allra verðlagshækkana eða um 45%. Hv. þingmaður þarf því ekki að skilgreina það fyrir hvað Framsóknarflokkurinn stendur í stjórnmálum. Það er ljóst.

Hins vegar tek ég undir það, og það er (Gripið fram í.) sameiginlegt baráttumál okkar allra, að halda á áfram að bæta kjör lífeyrisþega. Ég hef lýst því yfir að mér finnst kominn tími til þess að við endurskoðum í heild sinni lífeyriskerfi þjóðarinnar og þar er ég sérstaklega að tala um Tryggingastofnun ríkisins og þá starfsemi sem þar fer fram. Getum við ekki gert þessa þjónustu skilvirkari? Getum við ekki gert þessa þjónustu notendavænni en hún er? Ég þekki til fólks sem hefur þurft að bíða mjög lengi eftir því að ná tíma hjá Tryggingastofnun í gegnum eitt símtal, 15, 20 mínútur. Þetta er oftar en ekki fólk sem er ekki við fulla heilsu. Hvers lags framkoma er það við lífeyrisþega í landinu að þeir þurfi að bíða í slíkan óratíma bara eftir að komast í samband við viðkomandi stofnun? Við þurfum að byggja upp alvöruþjónustustofnun sem þjónustar þá sem þurfa á þjónustunni að halda.