133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[13:53]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Af verkunum eru menn dæmdir. Alveg eins og stendur í þessu bréfi sem ég vitnaði hér til ... (Gripið fram í.) Það er ekki nóg að hafa góðan vilja eða lýsa yfir áhyggjum og áhuga á málinu ef ekkert er gert.

Ég minni á að Tryggingastofnun hefur heyrt undir framsóknarráðherrana líklega síðan 1995. Er það (Gripið fram í.) ekki rétt hjá mér? Hún hefur heyrt undir Framsóknarflokkinn síðan 1995, í 11 ár. Í 11 ár hefur Framsóknarflokkurinn farið með málefni Tryggingastofnunar ríkisins.

Sá dómur sem hv. þingmaður kveður hér upp um starfsemi hennar, sem ég ætla ekkert að segja til um hvernig er í sínum daglegu störfum, er því á ábyrgð Framsóknarflokksins.

Ég harma að Framsóknarflokkurinn sem einu sinni kenndi sig við félagshyggju skuli vera svo algerlega horfinn frá þeim grunnhugsjónum í framkvæmd. Ég held að við hörmum það fleiri. Því fleiri flokkar, því fleiri þingmenn sem aðhyllast félagshyggju og samhjálp í raun hér á þingi, því betra, þó þeir séu í Framsóknarflokknum. En daprast er þó þegar menn vilja ekki viðurkenna (Gripið fram í: Að þeir séu í Framsóknarflokknum?) staðreyndirnar. Því meðan svo er þá er ekkert hægt að búast við að gripið verði til framkvæmda.

Við leggjum hér fram tillögur sem eiga að koma til framkvæmda strax. Ég spyr hv. þm. Birki J. Jónsson hvort hann vilji bara ekki styðja tillögurnar okkar. Þetta er útreiknað. Þetta er tilbúið.