133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[14:00]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það liggur beinast við, held ég, að taka aðeins upp þráðinn þar sem frá var horfið í ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar og andsvörum hv. formanns fjárlaganefndar.

Hv. formaður fjárlaganefndar, Birkir Jón Jónsson, sagði áðan að það hlyti að vera sameiginlegt markmið okkar í þinginu að bæta stöðu lífeyrisþega og í því sambandi þyrfti að endurskoða m.a. tryggingalöggjöfina að því er snýr að eldri borgurum og öryrkjum og jafnvel störf Tryggingastofnunar.

Nú ætla ég að láta störf Tryggingastofnunar liggja svolítið á milli hluta í ræðu minni en vek hins vegar athygli á því að í sameiginlegri tillögu stjórnarandstöðunnar frá því á síðastliðnu hausti er einmitt lagt til að hafin verði endurskoðun á stöðu tryggingaþega í landinu. Það verði gert með því að skilgreina neysluútgjöld og skoða viðmiðun fyrir grunnlífeyri og tekjutryggingu. Þessi viðmiðun hækki í samræmi við neysluvísitölu þannig að tryggt sé að hún haldi verðgildi sínu. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Hækki launavísitala umfram neysluvísitölu verði tekið mið af henni þannig að lífeyrisþegum sé tryggð hlutdeild í auknum kaupmætti í samfélaginu.“

Það er því ekkert nýtt að það sé talsverður vilji fyrir því í þinginu að skoða þessa málaflokka. Hins vegar hefur skort verulega á það að ríkisstjórnarflokkarnir hafi fengist í þessa vinnu á undanförnum árum.

Ég minni á það, hæstv. forseti, að sá sem hér stendur hefur í sex ár flutt tillögu í þinginu um að frítekjumark komi á undan skerðingarreglum Tryggingastofnunar.

Sameiginlega leggjum við til í stjórnarandstöðunni að tekið verði upp 75 þús. kr. frítekjumark vegna atvinnutekna frá næstu áramótum og að einnig verði skoðað hvort nýta megi hluta þessa frítekjumarks fyrir tekjur úr lífeyrissjóði og er síðan bent á leiðir í því sambandi.

Hafi hv. formaður fjárlaganefndar litið svo á að hann væri að boða algerlega ný sannindi í þinginu um að menn vilji skoða tengingu og skerðingarreglur Tryggingastofnunar gagnvart lífeyrisþegum, þá verð ég að upplýsa hann um að svo er ekki. Sá sem hér stendur hefur talað um þetta í fleiri ár. Hæstv. sitjandi forseti hefur talað um þessi mál í fleiri ár. Það er því algerlega út úr kortinu hjá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni að líta svo á að hann hafi uppgötvað einhvern nýjan sannleika í þessum málum með innkomu sinni áðan í andsvari við hv. þm. Jón Bjarnason. Svo er ekki. En við fögnum því auðvitað alveg sérstaklega þegar framsóknarmenn öðlast skilning á því að þetta sé ákveðið vandamál sem þarf að taka á. Ég fagna hverjum liðsmanni sem vill koma að þessum málum með okkur og gleðst yfir því, hæstv. forseti, þegar menn lýsa því yfir hér í pontu að það sé nauðsynlegt að fara í þessi mál. Það er í raun og veru efni þeirrar þingsályktunartillögu um nýskipan lífeyrismála sem stjórnarandstaðan flutti á haustdögum og það er efni þeirrar breytingartillögu sem við leggjum nú til sameiginlega, stjórnarandstaðan, við breytingu á þeim fjárlögum sem verið er að ræða hér.

Ef svona mikill áhugi og vilji er hjá þingmönnum Framsóknarflokksins sem hér hafa tjáð sig að taka á þessum málum, skora ég á þá þegar kemur til atkvæðagreiðslu að greiða sérstaklega atkvæði um það að hækka tekjutrygginguna samkvæmt tillögu okkar. Þar er verið að tala um 6 þús. kr. fyrir hvern einstakling sem hefur ekkert annað til að komast af, hvort heldur það er eldri borgari eða öryrki. Ég vænti þess að forusta Framsóknarflokksins hafi verið að taka merkilega afstöðu í þessu máli og formaður fjárlaganefndar hafi verið að tjá þá afstöðu, en að þeir komi ekki hér upp eins og ævinlega við afgreiðslu fjárlaga og greiði atkvæði á móti hverri einustu efnislegu og góðu tillögu sem stjórnarandstaðan flytur. (GÓJ: Hvaða tillögur eru það?)

Í því sambandi langar mig að upplýsa hv. þm. Birki Jón Jónsson og hv. þm. Guðjón Ólaf Jónsson, frammíkallanda, um það hver urðu verk stjórnarandstöðunnar á síðastliðnu hausti þegar stjórnarandstaðan flutti 42 tillögur til þess að lagfæra ýmislegt sem þá var verið að afgreiða í fjárlögunum. (Gripið fram í: Hvað eru þær margar núna?) Ég skal gera grein fyrir því á eftir í löngu máli þannig að þingmaðurinn öðlist skilning á því sem ég er að segja.

Síðan heyrði ég formann fjárlaganefndar lýsa því alveg sérstaklega yfir í ræðustóli fyrr í dag að hann harmaði það hversu fáar tillögur væru lagðar fram af stjórnarandstöðunni, (Gripið fram í: Já.) hann harmaði það alveg sérstaklega. Ég vissi það bara ekki fyrr en í morgun, hv. þingmaður, að það væri sérstakt skemmtiatriði fyrir Birki Jón Jónsson að fella allar tillögur stjórnarandstöðunnar, sama hversu góð málefni væri um að ræða. Ég áttaði mig ekki á því. Ég hefði aldrei trúað því að nokkur flokkur eða þingmenn nokkurs flokks væru þannig innréttaðir að þeir væru með það sem sérstakt skemmtiatriði að fella nánast allar málefnalegar tillögur stjórnarandstöðunnar. Það er búið að upplýsa það, það liggur þá fyrir. Þess vegna sakna hv. þingmenn þess náttúrlega núna að fá ekki aðrar tillögur frá stjórnarandstöðunni en mjög markverðar, tillögur um að hækka tekjutryggingu ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega og um nýja skipan lífeyrismála eins og við höfum lagt til í tillögu okkar.

Ég vænti þess, vegna þess hvernig menn hafa talað hér í morgun, að hv. þingmenn, a.m.k. Framsóknarflokksins — enn hefur enginn sjálfstæðismaður flutt ræðu, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kom hér upp í andsvörum — hafi þann manndómsbrag til að bera við afgreiðslu þessa máls að þeir geti samþykkt að fara í einu skrefi upp í 75 þús. kr. frítekjumark áður en til skerðingar kemur, ef þeim er eitthvað annt um að eldri borgarar og lífeyrisþegar í landinu komist betur af en þeir hafa gert á undanförnum árum.

Ef það á bara að vera skemmtiatriði að fella tillögurnar þá skil ég að þeir sakni þess að fá ekki fleiri tillögur, en þær eru um markverða stefnu og markverð atriði. Við völdum það í stjórnarandstöðunni að leggja eingöngu fram eina efnislega tillögu sem sneri að lífeyrispakka eldri borgara og öryrkja við þessa umræðu, vegna þess að við teljum að þetta sé forgangsmál, að þetta sé mál sem ekki sé hægt að draga ár eftir ár. Ég sagði áðan að í sex ár hefðum við í Frjálslynda flokknum flutt tillögu um 50 þús. kr. frítekjumark áður en kæmi til skerðingar.

Það er ekkert hægt að afsaka umræðuna með því að segja að hún sé flókin. Menn hljóta að vera búnir að kíkja örlítið inn í reglur Tryggingastofnunar á undanförnum árum. Menn hljóta að vita að skerðingin var einu sinni 67% og að hún er núna 45%. Menn hljóta að vita að ríkisstjórnin ætlar ekki að fara með hana nema niður í 38,35. Menn hljóta að vita að við í stjórnarandstöðunni höfum lagt til að hún fari í einu skrefi strax niður í 35 og að ekki kæmi 25 þús. kr. frítekjumark þar á undan eins og ríkisstjórnarflokkarnir hafa nú fallist á og lagt til, heldur 75 þús. Það væri frítekjumark sem dygði fyrir u.þ.b. hálfu starfi á vinnumarkaði, ekki mjög hálaunuðu starfi, sem væri það sem fólk gæti þénað án þess að fá 45% skerðingu eða 38,35% skerðingu plús skattgreiðslur, sem er það kerfi sem við höfum búið við á undanförnum árum. Ég hélt, satt að segja, að það væri búið að skrifa nóg af skýrslum um þetta mál og leggja fram nóg af gögnum til þess að allir gætu skilið um hvað málið snýst. Það snýst um það hvort við ætlum að viðurkenna að sú kynslóð eldri borgara sem kom okkur inn í nútímaþjóðfélag með vinnu sinni og framlagi, eigi að fá að njóta þess með okkur á seinni árum ævi sinnar að lifa mannsæmandi lífi. Ekki bara þeir sem höfðu það albest meðan þeir voru í starfi og hafa kannski góðan lífeyri, heldur líka hinir, líka hin 25% lífeyrisþega sem eru með undir 21 þús. kr. á mánuði úr lífeyrissjóði sínum. Þetta hljóta þingmenn að vita.

Þó að menn hafi skrifað að gullvagn framtíðarinnar væri einhvers staðar fram undan fyrir eldri borgara — það kom út úr tillögum Ásmundar Stefánssonar og ábendingum hans — þá hygg ég, hæstv. forseti, að það sé lengra í framtíðinni fyrir stóra hópa í þjóðfélaginu, því miður. Einkum fyrir þá lægst launuðu, þá sem eru í hálfu starfi, þá sem eru veikir, þá sem hafa stundað nám lengi og lenda svo í því að veikjast og ná ekki að afla þeirra tekna sem þeir ætluðu sér með námi sínu. Þetta fólk kemur ekki til með að eignast mikil lífeyrisréttindi. Það er því margt að athuga í þessum málum.

Hér er ég með þennan pakka, hv. þingmaður, með allar atkvæðagreiðslur þínar, öll neiin við 42 tillögum stjórnarandstöðunnar á síðasta þingi. Þannig að það er von að þú saknir þeirrar skemmtunar að geta ekki fellt 42 tillögur. En það reynir á það núna hvort hægt er að samþykkja fáar tillögur og þær markverðar. Það reynir á það hvort einhver meining er í þeim orðum sem sögð hafa verið í þessum ræðustól í morgun. Menn geta ekki látið svona ár eftir ár, eins og hér sé bara eitthvert leikhús. Það er ekki hægt.

Samtök eldri borgara og ríkisstjórnin gerðu með sér ákveðið samkomulag um bætta framtíð fyrir eldri borgara. Eldri borgarar hafa lýst því yfir að þeir hafi talið sig vera nánast nauðbeygða til að skrifa undir þann pakka, vegna þess að ella hefðu þeir ekki fengið ákveðna áfanga, m.a. í umönnunarmálum sem þeir sóttust eftir.

Við fengum bréf frá Landssambandi eldri borgara fyrir nokkru síðan, en það eru tillögur landssambandsins í lífeyris- og kjaramálum eldri borgara, þar segir, með leyfi forseta:

„Hafin verði nú þegar endurskoðun á lífeyristryggingakafla almannatrygginga, einangrað“ — ég endurtek: einangrað — „frá heildarendurskoðun laganna. Landssamband eldri borgara leggur jafnframt áherslu á að vinna við löggjöfina í heild verði hafin sem fyrst þar sem sérstaklega verði endurskoðaðar reglur um endurgreiðslur bóta frá Tryggingastofnun ríkisins, vegna annarra tekna.“

Ný tekjutrygging aldraðra hækki í 85 þús. kr. fyrir eldri borgara og í 86 þús. kr. fyrir öryrkja, sem er sama upphæð og sama tala og við í stjórnarandstöðunni lögðum til í tillögum okkar. Síðan er lagt til að skerðingarhlutfallið fari strax 1. janúar næstkomandi niður í 35% en ekki 38,35 eins og ríkisstjórnin ætlar að gera. Þeir taka sem sagt undir tillögu okkar í stjórnarandstöðunni, sem við erum með tillögur um að fjármagna við fjárlagagerðina núna, um að fara með skerðingarregluna strax niður um 10 prósentustig og hefja 35% regluna 1. janúar næstkomandi.

Þeir taka undir að frítekjur vegna atvinnutekna lífeyrisþega verði 75 þús. kr. á mánuði frá 1. janúar 2007 og bæta reyndar í og óska eftir því að það nái einnig strax til lífeyrissjóðstekna. Þeir segja í 4. lið tillagna sinna:

„Í ljósi þess að skattleysismörk hafa lækkað að raungildi telur Landssamband eldri borgara nauðsynlegt að hækka skattleysismörk að raungildi og bendir jafnframt á fyrri kröfur Landssambands eldri borgara um skattfrelsi grunnlífeyris.“

Þeir segja í 5. lið:

„Skerðing á lífeyri almannatrygginga vegna tekna maka og vegna sambýlis verði afnumin frá 1. janúar 2007.“

Það er sama tillaga og stjórnarandstaðan hefur lagt til sameiginlega.

Þeir tala um að hraða verði úttekt á framfærslugrunni lífeyrisþega sem unnið er að í nefnd forsætisráðherra. Í framhaldi af þeirri vinnu verði tryggt með lögum að ellilífeyrir fylgi neysluvísitölu eða launavísitölu, hækki hún meira þannig að lífeyrisþegum sé tryggð hlutdeild í auknum kaupmætti.

Þeir vilja hækka ráðstöfunarfé fyrir dvöl á stofnunum um 100%. En við lögðum til í stjórnarandstöðunni að hún hækkaði um 50% eða úr 22 þús. kr. í rúmar 33 þús., svokallaðir vasapeningar.

Þeir segja sem sagt að ráðstöfunarfé fyrir dvöl á stofnunum eigi að hækka um 100% og það eigi að taka gildi frá 1. júlí 2006, ásamt því að frítekjumark gagnvart tekjum þeirra sem dvelja á stofnunum verði hækkað úr 50 þús. kr. í 75 þús. kr., sem er sama tillaga og við í stjórnarandstöðunni höfum lagt til.

Þeir vilja einnig að frá 1. janúar 2008 verði stefnt að því að breyta greiðslufyrirkomulagi daggjaldastofnana fyrir aldraða svo þeir haldi forræði sínu, eins og gilt hefur í tæpa þrjá áratugi fyrir fatlaða. Þetta er sama tillaga og við í stjórnarandstöðunni höfum lagt til.

Þeir öryrkjar sem ná ellilífeyrisaldri haldi áfram aldurstengdum óskertum örorkubótum. Þetta er sama tillaga og við í stjórnarandstöðunni höfum lagt til.

Unnið verði markvisst að því að afnema tekjutryggingu og koma í staðinn á þrepatengdu skattkerfi. Við höfum ekki verið með þá tillögu inni í þeim pakka en höfum auðvitað bent á það í máli okkar að vegna lækkunar persónuafsláttar hafi skattgreiðslur lágtekjufólksins aukist. Það vita allir og þarf ekki mikið að deila um það. Búið er að leggja fram skýrslu eftir skýrslu um það.

Samtök eldri borgara hafa tekið að meginhluta til undir þá tillögu sem við í stjórnarandstöðunni höfum lagt til að stefnan yrði sett á við afgreiðslu fjárlaga. Við völdum það í stjórnarandstöðunni vegna þess að við teljum þetta mikilvægt mál og nauðsynlegt að stíga virkilega góð skref fram á við nú þegar, því nauðsynlegt er að eldri borgarar fái að njóta þess sem á að lagfæra í þjóðfélaginu. Það dragist ekki mörg ár inn í framtíðina.

Þess vegna höfum við lagt til, hæstv. forseti, að í fjárlagafrumvarpið kæmi ákvörðun um að í lífeyristryggingar, lið 08-204, kæmu til viðbótar 7.383,7 millj. kr., sem við teljum að þurfi til að fjármagna þetta dæmi.

Hæstv. forseti. Þetta eru þær tillögur sem stjórnarandstaðan hefur lagt upp með. Það verður því ekki mjög gaman hjá ríkisstjórnarflokkunum við afgreiðslu þessa máls því þeir geta bara fellt tvær, þrjár tillögur, en ekki 42 eins og á síðasta hausti.

Við völdum það í stjórnarandstöðunni að koma með þetta mál fram sem eitt mál við fjárlagagerðina vegna þess að þetta er eitt mikilvægasta málið sem við ættum að geta sameinast um á hv. þingi við afgreiðslu fjárlaga.

Í pakkanum í fyrra, hæstv. forseti, voru margar mjög efnislega góðar tillögur sem við töldum að þá þyrfti að gera lagfæringu á á fjárlögum þessa árs. Sumar af þeim tillögum sem eru í þessum pakka hefur ríkisstjórnin núna tekið upp, eða réttara sagt fjárlaganefnd, og sett inn í sínar tillögur í fjáraukanum fyrir síðasta ár og vafalaust eitthvað til lagfæringar í fjárlögum.

En það er sláandi að í sumum tilvikum eru menn að tala um sömu tölur í fjáraukanum fyrir þetta ár og stjórnarandstaðan lagði til upp á krónu. Ég nefni t.d. grunnskólana, (Gripið fram í: Framhaldsskólana.) framhaldsskólana vildi ég sagt hafa.

Þetta er nú svona, hæstv. forseti. Mér finnst ekki að stjórnarliðar þurfi að koma hér upp og halda ræður í þá veru að reyna að gera grín að okkur, eins og gert var í morgun. Ég held bara að þeir ættu að líta í spegil og gera grín að sjálfum sér. (Gripið fram í: Þeir hverjir?) (Gripið fram í: Framsóknar...) Ég er að tala við þá sem töluðu við okkur hér í morgun um þessi mál. Ég gat þess þegar þú varst fjarverandi, hæstv. forseti, að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefði ekki flutt ræðu hér í morgun. Þannig að það sé alveg ljóst, hæstv. forseti, við hverja ég á í máli mínu. En svona er nú þetta.

Ég held að það sé ákaflega nauðsynlegt fyrir íslensku þjóðina að átta sig á því að undanfarin þrjú ár á þessu kjörtímabili hefur stjórnarandstaðan flutt fjölda tillagna til að reyna að hafa áhrif á ýmislegt í afgreiðslu fjárlaga. Mér er nær að halda, þó ég hafi ekki skoðað nema bara árið í fyrra þar sem hver einasta tillaga var felld, að allar breytingartillögur sem við höfum borið inn í þingsal hafi ævinlega verið felldar af ríkisstjórninni.

Ekki skal draga dul á og er alveg réttmætt að segja það í þessum ræðustól, að vissulega er það svo að í vinnunni í fjárlaganefnd, sem oft er ágæt, nær stjórnarandstaðan stundum að lenda málum í samstarfi við stjórnarflokkana og menn eru sammála um þá niðurstöðu. Það ber auðvitað að þakka.

En það er alveg óþarfi, hæstv. forseti, að koma hingað upp og reyna að gera málflutning okkar ótrúverðugan að þessu leyti núna vegna þess að við flytjum of fáar tillögur. Þær eru markverðar og þær kosta mikla peninga. Við gerum okkur grein fyrir því. En þær eru stefnumarkandi og markverðar. Það er alveg óþarfi af forustumönnunum í fjárlaganefnd að gera grín að því, þó að við höfum valið þessa málsmeðferð núna og höfum ekki komið með pakka ykkur til skemmtunar til að fella. (Gripið fram í.) Já, ég gleðst alltaf með æskumönnum og Birkir Jón Jónsson er einn af betri æskumönnum þessa lands, ég get alveg sagt það. Ég er ekki að tala niður til hans að því leyti til. Ég er bara ósáttur við það hvernig hv. þingmaður nánast reyndi að tala niður til okkar og gera grín að okkur í stjórnarandstöðunni í morgun. Þess vegna hef ég snúið þessu upp á hv. þingmann og bið hann nú að labba fram á eftir þegar hann hefur tíma til og kíkja í spegil og koma svo hér inn með samviskuna að vopni í þennan ræðustól.

Hæstv. forseti. Ég hafði langa ræðu hér á blöðum sem ég ætlaði að flytja, en ég er satt að segja að hugsa um að sleppa henni og láta þetta nægja. Það er þó eitt atriði sem ég vil vekja athygli á að lokum. Flutt hefur verið frumvarp inn í þing um að afnema og leggja niður það sem fjölskyldur landsins hafa getað treyst á að þær fengju, þ.e. sérstakar greiðslur upp á 92 þús. kr. fyrir önnina, fyrir nemendur af landsbyggðinni á aldrinum 16–18 ára sem þurfa að sækja í framhaldsnám um langan veg, sem þeir hafa notað sem dreifbýlisstyrk. Núna liggur einhvers staðar í nefnd mál um að fella þær greiðslur niður. Ég minni á að menntamálaráðherra hefur fallist á að stofna til framhaldsskóladeildar í Vesturbyggð. Við fögnum því. Ég vona að við fögnum því öll.

Okkur þingmönnum Norðvesturkjördæmis voru kynntar tölur sem unnar voru af fólki í Vesturbyggð þar sem sýnt var fram á að námskostnaður eins nemanda á framhaldsskólastigi, ef senda þurfti hann um langan veg til náms, gat leikið á bilinu 600 þús. kr. upp í milljón ári. Yfir milljón á ári. Upp í þennan kostnað átti fjölskylda að fá tvisvar sinnum 92 þúsund í dreifbýlisstyrk. Þetta á núna að fella niður. (Gripið fram í.) Þetta er í sérfrumvarpi sem liggur í þinginu. Ég er að vekja athygli á þessu í annað sinn, því ég gerði það einnig við fjáraukalagaumræðuna. Ég er að vekja athygli á þessu núna í annað sinn vegna þess að ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að ríkisstjórnin ætli að fara með málið óbreytt í gegn. Það getur bara ekki verið. Þetta er í algerri andstöðu við allt sem við höfum samþykkt hér á hv. þingi.

Ég minni á byggðastefnuna um að þar skuli menntunarmál vera í forgangi með sérstöku tilliti til landsbyggðarinnar. Það getur ekki verið að menn ætli að gera þetta svona. Þetta hljóta að vera mistök. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því, hæstv. forseti, að tillagan sem er í 4. lið frumvarpsins, ef ég man rétt, komi óbreytt inn í þing til afgreiðslu eða samþykktar. Það getur ekki verið vilji þingmanna miðað við stefnuna sem tekin var í byggðamálum, að leggja aukna áherslu á menntun og miða við það að fólk sitji sem mest við sama borð hvar sem það býr á Íslandi. Nær væri að hækka dreifbýlisstyrkinn.

Í lokin vil ég minna á að við vorum með tillögu um það í fyrra að hækka dreifbýlisstyrkinn en hún var felld. Svo ég vitni bara í eina af þeim tillögum sem við vorum með.

Ég ætla rétt að vona, hæstv. forseti, að orð mín hafi orðið til þess að menn hugsi sig um og líti stundum á þær tillögur sem stjórnarandstaðan flytur með jákvæðu hugarfari og að tillögur stjórnarandstöðunnar eru líka til framfara og bóta en ekki einungis til að skemmta sér yfir og fella þær síðan.