133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[14:35]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það liggur fyrir og er skráð í þingtíðindi, að hv. þm. Sigurjón Þórðarson, heilbrigðisráðherraefni stjórnarandstöðunnar, lýsti því yfir í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra hér fyrr í haust (Gripið fram í.) að það yrði að skera niður ríkisútgjöld. Þegar hann var spurður nánar út þau efni þá vék hann sérstaklega að lyfjamálunum og ætlaði þannig að auka lyfjaálögin á sjúklinga. Það voru nú öll ráðin þegar hann var spurður.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Hvernig samræmist þessi tillaga, þessi eina tillaga stjórnarandstöðunnar við 2. umr. um frumvarp til fjárlaga, þeirri stefnu Frjálslynda flokksins að skera niður ríkisútgjöld? Þetta er tiltölulega einföld spurning og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður geti svarað henni.

Og í öðru lagi, og það er seinni spurningin sem ég kom með áðan og hv. þingmaður vék sér fimlega frá að svara. Ætlar Frjálslyndi flokkurinn og hv. þingmaður að styðja tillögur meiri hluta fjárlaganefndar um aukin ríkisútgjöld upp á 9,5 milljarða?