133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[15:21]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, talsmaður Sjálfstæðisflokksins í fjármálum og efnahagsmálum, fór víða yfir. Það er alveg rétt sem hann sagði, hann lýsti hvernig stefna Sjálfstæðisflokksins hefur verið. Að atvinnustefnan hefði verið stóriðjustefna, umhverfisstefnan hefði verið stórvirkjanir, efnahagsstefnan og skattastefnan hefði verið að lækka skatta á hátekjufólki og fella niður sérstaka hátekjuskattinn, færa skattbyrðina frá hátekjufólki yfir á lágtekjufólk, einkavæðing á Símanum, einkavæðing á almannaþjónustu. Já, þetta hefur verið stefna Sjálfstæðisflokksins og opinber stefna. Og ég spyr hvaða göldrum þurfti að beita, eða kannski þurfti ekki að beita neinum göldrum, á Framsóknarflokkinn til að fylgja þessu öllu eftir?

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum andstæð þessari stefnu. Við erum á móti því að færa eigi skattbyrðina yfir á lágtekjufólk. Það er alveg hárrétt.

Ég vildi hins vegar heyra hvernig hv. þingmanni líst á efnahagshorfurnar. Eru ekki stýrivextir Seðlabankans 14%? Er það eitthvað sem lýsir góðri efnahagsstjórn af hálfu ríkisstjórnarinnar? Fer ekki viðskiptahallinn líklega á þriðja hundrað milljarða króna á þessu ári? Var reyndar áætlaður fyrir ári síðan 130 milljarðar, að mig minnir, 110, 120 eða 130, eitthvað svoleiðis. Fer svo líklega á þriðja hundrað. Sýnir það góða efnahagsstjórn? Sýnir það jafnvægi í efnahagsmálum?

Hverjar eru svo horfurnar fyrir næsta ár? Eigum við að búa áfram við þetta gríðarlega vaxtastig sem stýrt er af atvinnu- og efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, þótt hv. þingmaður reyni að kenna Seðlabankanum um það? Hefur hv. þingmaður engar áhyggjur af skuldastöðu þjóðarbúsins sem slíks, sem hefur margfaldast bara á örfáum árum?