133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[15:25]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vek athygli á því að þingmaðurinn forðast að ræða efnahagsforsendurnar og skuldastefnu þjóðarbúsins, háa vexti. En hann hefði kannski getað minnst á það sem kom fram á fundi með fulltrúum efnahags- og viðskiptanefndar þar sem sagt var að verði ráðist í frekari stóriðjuframkvæmdir eða gefinn ádráttur um slíkt á næsta ári væru þessar efnahagsforsendur sem hér er lagðar til grundvallar hrundar. Þá næðum við ekki vaxtastiginu niður, þá næðum við ekki verðbólgunni niður.

Þegar við krefjumst svara um hvað ríkisstjórnin ætlar að gera í þeim efnum þá er draumur þeirra alls staðar, eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kom inn á, um aukna stóriðju, fleiri álver. En hvað kostar það efnahagslífið? Þeir sem komu á fund nefndarinnar sögðu að aukin stóriðja á næsta ári eða ádráttur um slíkt þýddi áframhaldandi ógnarjafnvægi í efnahagsmálum ef þá yrði nokkurt jafnvægi, a.m.k. verða þær tekjuforsendur sem hér eru lagðar upp og grunnforsendur fjárlaga alveg út í buskanum. Ég bið hv. þingmann að átta sig aðeins á því á hvaða grunni er byggt og hlusta á varnaðarorðin hvað þetta varðar.

Hv. þingmaður minntist á sjávarútveginn. Ætli sjávarbyggðirnar á Vestfjörðum, Norðurlandi og víðar hafi ekki orðið býsna hart úti vegna stóriðjustefnunnar, vegna stefnunnar í sjávarútvegsmálum? En hv. þingmanni virðist vera alveg sama um það.

Að lokum. Tillaga okkar í stjórnarandstöðunni hljóðar upp á að hækka frítekjumark (Forseti hringir.) atvinnutekna vegna lífeyrisþega upp í 75 þús. kr. á mánuði. Styður þingmaðurinn það?