133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[15:32]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hefur komið fram í skýrslum fjármálaráðuneytisins að ráðstöfunartekjur, þ.e. tekjur eftir skatta, hafa að sjálfsögðu verið mismunandi. Lægstu tölurnar eru í kringum 26–28% raunhækkun kaupmáttar á nokkru árabili, sem er þó hærra en nokkurs staðar annars staðar í heiminum.

Hvað hefur gerst á Íslandi? Hingað hafa komið inn mjög stórir atvinnuvegir, hátækniatvinnuvegir og hinn mikli atvinnuvegur sem heitir bankar. Hvað gera þessi fyrirtæki? Þau borga fyrir menntun, það er sú mikla blessun sem hefur komið yfir þetta land. Það er fullyrt við mig að menntunarstig starfsmanna íslenskra banka sé mjög svipað og kennaranna við háskólana. Bankastarfsemi er orðin stærri, eins og við mælum þetta, en sjávarútvegurinn. Þar er borgað mjög, mjög hátt kaup. Er það rangt? Er það kannski, virðulegur forseti, eins og Ögmundur Jónasson hélt fram, að það væri betra að vera laus við fyrirtæki sem gæti borgað hátt kaup en að lenda í því að ekki hefðu allir jafnt?

Það er ekki samasemmerki milli jafnaðar og réttlætis, það er langt því frá. Það er einmitt efnahagslífið sem getur borgað há laun, sem getur keypt hér dýrasta vinnuaflið, sem gefur mestu fjármuni inn í samfélagið og gerir okkur kleift að standa vörð um þá sem minnst mega sín í samfélaginu. Þetta er sú efnahagspólitík sem við höfum staðið fyrir, þess vegna erum við að ná árangri, þess vegna er þetta að vaxa. Það er af hinu góða að hámenntaðir Íslendingar geta sótt vinnu sína hér á Íslandi og fengið mjög hátt kaup. Værum við betur settir ef þetta fólk gæti ekkert unnið hér á Íslandi, yrði bara að vera í útlöndum? (Forseti hringir.) Væri það betra, væri þá meira réttlæti?