133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[16:50]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki margt í ræðu hv. þingmanns sem ég kýs að tala um en ég vildi ekki láta hjá líða að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún hefur örugglega opinberað fyrir þeim sem hér fylgjast með hvað Framsóknarflokkurinn er óskaplega hræddur við kosningarnar fram undan.

Hann hefur kosið að ganga með Sjálfstæðisflokknum til þeirra kosninga og reka þann hræðsluáróður að aðrir geti ekki stjórnað landinu en Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn saman. Hann hefur kosið, eins og gert hefur verið á undanförnum árum reyndar, að þakka þessum tveimur flokkum fyrir allt gott sem er gert í landinu, jafnvel sólskinið og góða veðrið. (GÓJ: Það gerði ég ekki.) Það liggur að minnsta kosti nærri að svo sé.

Ég verð að segja alveg eins og er að það er mikill sjónarsviptir að Framsóknarflokknum í íslenskri pólitík. Það er ömurlegt að sjá hvernig hann ætlar að ganga sína hinstu göngu. Ég man eftir framsýnum manni sem sagði fyrir nokkrum árum að það ætti að sameina flokkana. Hannes Hólmsteinn Gissurarson er sá. Menn hafa ekki haft þá tillögu uppi mikið síðan en sá tími sem hefur liðið nú í haust og aðfaradagar þessara kosninga sem eru núna fram undan segja okkur svo skýrt að Framsóknarflokkurinn er genginn í björgin endanlega og að það er alveg óhætt að fara að halda útfararræðurnar yfir honum.