133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[18:03]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Síðasta andsvar hv. þingmanns var náttúrlega með ólíkindum, nema hann sé að gera sér það að leik að snúa út úr orðum mínum, bæði í andsvari og líka í þeim ræðum sem ég hef flutt um þetta mál, bæði í umræðu um fjáraukalög og fleiri atriði.

Einn þáttur þess sem ég er að gagnrýna og sem er birtingarmynd óstjórnar ríkisstjórnarinnar í umgengni um fjárlögin eru þessar of- og vanáætlanir, skipulögðu of- og vanáætlanir. Auðvitað hefur það áhrif þegar tugir milljarða flæða á milli ára. (EOK: Ekki …) Herra forseti. Auðvitað hefur það áhrif þegar tugir milljarða flæða á milli ára og menn eru gjörsamlega búnir að missa yfirsýnina á þá raunverulegu heildarmynd sem fjárlög eiga að gefa. Menn hafa enga yfirsýn lengur vegna þess að þeir hafa leyft slíkum vinnubrögðum að malla ár eftir ár. Ætlar hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson að segja mér að það geti ekki haft áhrif ef tugir milljarða eru látnir flæða milli ára hjá stofnunum. (EOK: Og 20 milljarðar skildir eftir?)

Virðulegi forseti. Hv. þingmanni er órótt þegar ég bendi á þá staðreynd að ríkisstjórninni hefur algerlega mistekist. Hún hefur misst fjárlagagerðina algerlega úr böndunum. Við erum með mjög mörg dæmi um það og harða gagnrýni frá Ríkisendurskoðun á framkvæmd fjárlaga. Ríkisstjórnin hefur fullkomlega misst tökin á efnahagsmálum. Við erum með hæstu vexti í heimi, við erum með mesta viðskiptahalla sem þekkist (Forseti hringir.) og er líklega heimsmet. Við höfum búið við verðbólgu (Forseti hringir.) sem við höfum ekki séð í langa tíð, þó að hún sé að fara niður nú, (Forseti hringir.) allt of lengi.