133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[20:15]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi skuldirnar. Það eru skuldir ríkissjóðs sem ég hef tekið hér til umfjöllunar og þær hafa stórlækkað. Skuldir ríkissjóðs, svo það sé á hreinu, hafa stórlækkað og íslenska ríkið skuldar ríkja minnst í Vestur-Evrópu. Þegar talað er um að skuldir einstaklinga og skuldir þjóðarinnar hafi aukist verðum við líka að taka með eignirnar, vegna þess að eignir fjölskyldnanna í landinu hafa jafnframt stóraukist.

Hér var spurt um lög um opinbera starfsmenn. Ég er þeirrar skoðunar að afnema eigi áminningarskylduna. Það er mín bjargfasta trú. Ég er þeirrar skoðunar að áminningarskyldan í lögum um opinbera starfsmenn leiði til of mikilla þyngsla í ríkisrekstrinum, komi hreinlega í veg fyrir að hægt sé að gera nauðsynlegar hagræðingar þegar þörf krefur. Ég held að dæmin sanni það. Við höfum m.a. fengið ákall frá forstjóra Landspítalans sem sagði (Forseti hringir.) nauðsynlegt að gera þessa breytingu ef gera ætti þá kröfu til hans að standast fjárlög.