133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[20:16]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við sem ekki erum í Sjálfstæðisflokknum lítum á Íslendinga sem eina þjóð. Þegar við tölum um skuldir þjóðarinnar horfum við til þjóðarinnar allrar, ríkisins, sveitarfélaga, fyrirtækja og heimilanna í landinu. (Gripið fram í: Og eignanna.) Og eignanna líka. Við horfum á nettóskuldir þjóðarinnar sem eru hæstar miðað við landsframleiðslu í heiminum.

Varðandi áminningarskylduna og réttinn til að reka fólk, þá er það svo að þeir sem stýra stofnunum eru embættismenn. Þeir eru ráðnir til fimm ára og lúta öðrum reglum en almennir starfsmenn. Það er gagnvart almennum starfsmönnum sem menn vilja afnema áminningarskylduna. Það er þannig að forstjórar, og það gildir um veika forstjóra, sem ekki treysta sér til að ræða við sitt fólk vilja geta rekið fólk án nokkurra skýringa. Út á það gengur afnám áminningarskyldunnar, og að Sjálfstæðisflokkurinn sé talsmaður þess að afnema mannréttindi með þessu móti er furðulegt á að hlýða.

En (Forseti hringir.) svona tala menn sem eru talsmenn veikra stjórnenda (Forseti hringir.) sem þora ekki að ræða opinskátt við sína (Forseti hringir.) starfsmenn. Það er hægt að leggja niður störf hjá ríkinu (Forseti hringir.) og það er hægt að vísa mönnum frá en það á að fara eftir settum leikreglum.

(Forseti (ÞBack): Ég vil áminna hv. þingmenn um að virða ræðutímann þar sem hann er svo knappur, eingöngu ein mínúta.)