133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[20:19]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ýmislegt sem skyggir á það sæluríki sósíalismans sem hv. þingmaður dró upp áðan og gerði að umtalsefni í ræðu sinni. En það eru skattalækkanirnar sem ég ætlaði að spyrja hann út í sem hann hafði mörg orð um áðan. Þegar rýnt er ofan í þær kemur í ljós að mest hefur dregið úr skattbyrði þeirra sem hæstar hafa tekjur þar sem skattbyrði þeirra hefur helmingast niður á við, úr 35% í 18%, á meðan skattbyrði þeirra sem eru tekjulægstir hefur í sumum tilvikum margfaldast. Hv. þingmaður lagði mjög út af hinum farsælu skattalækkunum hægri stjórnarinnar í ræðu sinni áðan. Er þetta ásættanleg niðurstaða af skattalækkunarhrinunni, eins og hann orðaði það? Var þetta markmiðið? Hyldýpi á milli á stétta í samfélaginu og nánast barbarískur ójöfnuður sem á sér varla samjöfnuð nema í nokkrum löndum sem ég mun nefna í síðari andsvari mínu.