133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[20:21]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var nokkuð dæmalaus flótti frá hinni miklu lofræðu um skattalækkunarhrinu ríkisstjórnarinnar. Það sem ég nefndi áðan um skattbyrði einstakra hópa í samfélaginu er algjört grundvallaratriði. Það er það sem þetta gengur allt út á.

Hv. þingmaður talaði um að við mættum ekki sligast undan byrðum sósíalismans og við yrðum að gæta hófs í því. Það er einmitt það sem skiptir öllu máli. Á síðustu tíu árum hefur myndast hyldýpi á milli hópa og stétta í samfélaginu. Þetta er algjört grundvallaratriði í allri umræðu um skattalækkanir. Og svo ég vitni í hinn fræga Gini-stuðul þá er Ísland í fjórða sæti þeirra þjóða þar sem tekjuskiptingin er ójöfnust. Það eru bara Lettland, Portúgal og Tyrkland sem standast nokkurn samjöfnuð við hinn íslenska ójöfnuð sem er orðinn að sérstöku fyrirbæri hér á landi. Þess vegna spurði ég hv. þingmann, sem gerði svo mikið úr skattalækkunum: (Forseti hringir.) Er það ásættanleg niðurstaða af (Forseti hringir.) skattalækkunarhrinu ríkisstjórnarinnar?