133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[20:29]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er bara ekki rétt eftir mér haft að ég sé sérstaklega að horfa til þeirra, sambúðaraðila, sem hafa í heildarráðstöfunartekjur um 400 þús. Ég tiltók einungis eitt dæmi úr frumvarpinu sem liggur frammi, sem sýnir fram á að jafnvel sambúðaraðilar sem hafa úr að spila 250 þús. kr. atvinnutekjum og 150 þús. kr. lífeyristekjum, munu eiga rétt til bóta úr kerfinu. Jafnvel þeir sem hafa þessar tekjur. Svo mun rétturinn auðvitað aukast eftir því sem atvinnutekjurnar eru lægri.

Ef við tökum bara dæmið sem hér er kallað eftir, og er einmitt að finna í frumvarpinu, um þann sem hefur 100 þús. kr. atvinnutekjur, þá gera tillögur ríkisstjórnarflokkanna ráð fyrir að einhleypur ellilífeyrisþegi með 100 þús. kr. atvinnutekjur fái sem nemur 22% hærri bætur, nái þessar breytingar fram að ganga, en gildir í dag. Ég get því ekki betur séð en að verið sé að svara ákalli hv. þingmanns mjög rækilega.