133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[23:51]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get staðfest að það er alveg hárrétt hjá hv. formanni fjárlaganefndar að sú yfirlýsing lá fyrir innan fjárlaganefndar að farið yrði yfir skuldastöðu sjúkrahúsa og öldrunarstofnana fyrir 3. umr. fjáraukalaga og ég sé enga ástæðu til annars en að það verði gert og vonandi að þar verði tekið á málum.

Hins vegar varðandi rekstrargrunn heilbrigðisstofnananna og viðkomandi stofnana fyrir næsta ár þá skal það upplýst að ég innti eftir því innan fjárlaganefndar áður en það var afgreitt út hvort ætlunin væri að taka það fyrir. Eftir að ég hafði spurt um það var sagt að það yrði gert, þó með nokkrum semingi. Ég gat sem sagt ekki skilið það svo að því hefði samt verið lýst yfir að fara skyldi efnislega í það. Ég vil því gjarnan heyra það hjá hv. þingmanni hvort það sé líka staðfast áform formanns fjárlaganefndar að endurskoða líka og kanna hvernig megi bæta úr rekstrargrunni heilbrigðis- og öldrunarstofnana fyrir rekstrarárið 2007. Ég tel að það skipti miklu máli að gera það.

Varðandi síðan tillöguflutninginn þá vil ég segja að eðlilega starfa nefndir og einstakir nefndarmenn þannig innan nefndar, ég tala nú ekki um fjárlaganefndar, í tengslum við þau mál og málaflokka sem á annað borð koma þar inn og nefndarmenn fá sameiginlega aðgang að (Forseti hringir.) að þeir fjalla að sjálfsögðu um þau atriði og flytja um þau beinar og óbeinar tillögur innan nefndarinnar.