133. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[00:28]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er einkennilegur málflutningur hjá hv. þingmanni. Nú vísar hann til tillagna sem stjórnarandstaðan lagði fram í fyrra, við umræður um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2006. Við erum að ræða um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2007 og það liggur fyrir að það eru engar tillögur frá hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar, engar tillögur um framlög til menntamála, engar tillögur um framlög til heilbrigðismála og engar tillögur um framlög til félagsmála.

Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að hann legði áherslu á velferðarkerfið, að stjórnarandstaðan legði áherslu á velferðarkerfið, og þetta er sami hv. þingmaður og hefur lýst því yfir, til að mynda í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra, að það þurfi að skera niður ríkisútgjöld. Hvernig kemur sá málflutningur heim og saman við tillögur hv. þingmanns, sem hann er að mæla fyrir, um útgjöld til aldraðra og aukinn ellilífeyri? Hvaða tillögur hefur hv. þingmaður í fyrsta lagi um niðurskurð í ríkisútgjöldum? Það dugar ekki fyrir hv. þingmann að vísa til einhvers meints niðurskurðar á lyfjakostnaði ríkisins. Hann veit það sjálfur að það verður eitthvað meira að gerast en að skera niður lyfjaútgjöld. Ég spyr líka hv. þingmann: Ætlar hann að styðja tillögur meiri hluta fjárlaganefndar um aukin ríkisútgjöld upp á 9,5 milljarða við atkvæðagreiðslur á morgun?