133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[10:35]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi frú forseti. Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2007 kemur nú til atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. Í þessu frumvarpi er margt gott sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa tekið undir, bæði í umræðum á þingi og í umfjöllun í nefndum. Hins vegar er þar einnig annað sem er miður, t.d. að enn skortir fjármagn til allmargra heilbrigðisstofnana, sérstaklega á landsbyggðinni, til öldrunarstofnana og til ýmissar annarrar umönnunar sjúkra og heilsugæslu.

Stjórnarandstaðan hefur á Alþingi frá fyrsta degi þingsins sameinast um eitt mál, eitt stórmál sem var stórátak í lífeyristryggingum elli- og örorkulífeyrisþega og annarra sem lifa á lægstu bótum. Við lögðum fram í upphafi þings þingsályktunartillögu um nýja framtíðarskipan lífeyrismála þar sem lögð var áhersla á að taka til hendi. Við flytjum breytingartillögur við þetta frumvarp í samræmi við þá þingsályktunartillögu um að tekjutrygging aldraðra verði að lágmarki 86 þús. kr., að frítekjumark lífeyrisþega vegna atvinnutekna verði lágmark 75 þús. kr. á mánuði, að vasapeningar hækki frá því sem nú er um 50% og önnur grunnatriði sem við leggjum til. Þetta eru megináherslur okkar í umræðum um þessi fjárlög.

Ég vitnaði í gær í bréf sem ég fékk frá trésmið sem hafði misst heilsuna. Hann lýsti því hvernig þau hjónin höfðu barist fyrir því að fá nægar ráðstöfunartekjur. Skerðingar hér og skerðingar þar hvar sem niður var borið. Hann spurði: Hvað ætlið þið að gera? Jú, tillögur okkar, sem hér verða bornar upp, eru um stórkostlega bót á málum eða a.m.k. lágmarksbætur fyrir þessa hópa verði þær samþykktar hér á Alþingi í nokkru góðæri. Það er góðæri á vissan hátt þótt menn efist um forsendur þess.

Að öðru leyti, frú forseti, sitjum við hjá við atkvæðagreiðslu um allar megintillögur frumvarpsins en leggjum áherslu á að tillögur okkar nái fram að ganga.