133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:01]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Fjölmargir af yngri forustumönnum Sjálfstæðisflokksins hafa á síðustu vikum og mánuðum lýst því yfir að hækka beri frítekjumarkið. Sumir hafa jafnvel lýst því yfir að leyfa eigi ellilífeyris- og örorkulífeyrisþegum að vinna eins mikið og þeir vilja án þess að það skerði lífeyri þeirra. Það væri jákvætt í núverandi ástandi þar sem við þurfum á öllu vinnuafli að halda. Því var lýst yfir af einum af upprennandi leiðtogum Sjálfstæðisflokksins í umræðu í gær að þetta kerfi væri vont og vinnuletjandi.

Nú leggur stjórnarandstaðan fram tillögu sem gerir ráð fyrir því að horfið verði að hluta til frá þessu kerfi. Hér hafa því þingmenn stjórnarliðsins tækifæri til að standa við stóru orðin. En eins og endranær hafa þeir fallið á prófinu. Dáðir fylgja ekki orðum. Hér er talað um að auka kostnað ríkissjóðs vegna þessa um 400 millj. kr. umfram tillögur ríkisstjórnarinnar.

Hæstv. fjármálaráðherra segir að velsæld ríki. Velsældin er ekki meiri en svo að það er ekki hægt að koma til móts við aldraða og öryrkja með þessum hætti. Ég segi já.