133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:02]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Eins og allir í þessum sal sjá er hér á ferðinni mikið sanngirnismál. Það er með ólíkindum að við skulum deila um þessa tillögu í ljósi þeirra kjarabóta sem hún tryggir eldri borgurum og í ljósi þeirrar hugmyndafræði sem liggur henni að baki.

Þetta er ekki dýr tillaga. Í raun munu fleiri krónur koma í ríkiskassann með aukinni atvinnuþátttöku eldri borgara þannig að hún er ódýrari en sú tala gefur til kynna sem liggur fyrir á þessu blaði. Ég held að aðstaða stjórnarliða í dag sýni að þeir meina afskaplega lítið með því að þeir ætli að setja málefni eldri borgara í forgang. Við sjáum að víða í samfélagi okkar er sótt að eldri borgurum. Skýrasta dæmið er hin síaukna skattbyrði sem þessi hópur þarf að búa við.

Nú hefur meira að segja komið fram að ríkisstjórnarflokkarnir beinlínis hótuðu Landssambandi eldri borgara í samningaviðræðum að ef þeir drægju skattamálin og lífeyrismálin inn í umræðuna þá mundu áform um búsetuúrræði komast í uppnám. Ég spyr: Hvers konar ríkisstjórn höfum við, sem hótar hagsmunasamtökum eldri borgara með þessum hætti? Þess vegna segi ég já.